15. febrúar 2017

Álverið á Reyðarfirði er ein þriggja lífskjarabyltinga Austurlands

Hinir vinsælu þættir „Um land allt“ á Stöð 2 í umsjón Kristjáns Más Unnarssonar hafa gefið landsmönnum innsýn í líf fólks víða um land og meðal annars sýnt höfuðborgarbúum hversu heillandi lífið á landsbyggðinni getur verið. Þáttur sem tekinn var upp á Austfjörðum sýnir samfélagsleg áhrif álvers Fjarðaáls í mjög jákvæðu ljósi.

Þann 13. febrúar fjallaði þáttturinn m.a. um lífið á Breiðdalsvík og ræddi við íbúa þar og í nágrenninu. Meðal viðmælenda Kristjáns Más var sóknarprestur Breiðdælinga, Gunnlaugur Stefánsson, fyrrverandi alþingismaður, en hann ræddi um samfélagsbreytingar á Austurlandi á þeim tíma sem liðinn er síðan hann flutti þangað fyrir þrjátíu árum síðan. Segir hann þrennt standa upp úr, sem nálgist það að vera lífskjarabyltingar. Í fyrsta lagi eru það samgöngumál, í öðru lagi tilkoma lágvöruverðsverslana og í þriðja lagi álverið á Reyðarfirði.

„Það hefur skipt verulegu máli fyrir atvinnu fólksins hér á Austurlandi og ekki bara atvinnu, heldur haft hvetjandi áhrif á mörgum sviðum fyrir búsetuna,“ segir séra Gunnlaugur.

Kristján Már getur þess að Gunnlaugur hafi beitt sér opinberlega í þágu umhverfisverndar á Austurlandi með baráttu gegn laxeldi í sjó. Þá var hann á sínum tíma formaður umhverfisnefndar Alþingis þegar fyrstu lög voru sett um mat á umhverfisáhrifum.

Gunnlaugur segir þó: „Og ég hugsa bara með hrolli og skelfingu til þess ef álverið hefði ekki komið. Hvað hefði þá orðið um búsetu hér á Austurlandi? Ég vil ekki hugsa það til enda.“

Af orðum hans að dæma hefur tekist vel að samræma umhverfisverndarsjónarmið og verðmæta þjóðarframleiðslu til góðs fyrir fólkið á Austurlandi.

Iceland_Fjardaal_2
Sjálfboðaliðar á vegum Alcoa Fjarðaáls á Egilsstöðum.

Í þættinum var einnig rætt við ung hjón sem fluttu nýlega af höfuðborgarsvæðinu og settust að á Breiðdalsvík. Þau Sigrún Birgisdóttir þroskaþjálfi og Valdimar Finnsson smiður láta vel af því að búa þar með sína þrjá drengi. Hún fékk vinnu í grunnskólanum en hann er framleiðslustarfsmaður á A vakt í kerskála hjá Alcoa Fjarðaáli. Þau segjast sjá mest eftir því að hafa ekki gert þetta löngu fyrr. „Við erum ekkert á leiðinni suður aftur,“ segir Sigrún að lokum í þættinum „Um land allt.“

Morguninn eftir sýningu þáttarins var fjallað um viðtalið við Gunnlaug í þættinum „Í Bítið“ á Bylgjunni en þáttastjórnendur hringdu í Stein Jónasson hjá Slökkviliði Fjarðabyggðar til þess að spyrja: „Bjargaði álverið Austfjörðum eða ekki?“

Steinn Jónasson: „Auðvitað bjargaði álverið kannski ekki Austfjörðum en álverið gerði gríðarlega góða hluti fyrir Austfirði og hefur haft mikil áhrif hér.“

Aðspurður að því hvaða breytingar urðu með tilkomu álversins segir Steinn að fyrst og fremst hafi skapast mörg störf, bæði bein og afleidd. Þá hafi sameining sveitarfélaga í Fjarðabyggð skipt miklu og einnig tilkoma fyrirtækja sem hófu eða efldu starfsemi sína á Austurlandi. Hann nefnir sem dæmi Húsasmiðjuna, Byko, Hamar, Vélaverkstæði Hjalta og fleiri fyrirtæki.

Þá sagði Steinn: „Hér var náttúrulega gríðarlega erfitt ástand áður en álverið kemur og áður en þetta byrjar allt saman.“ Hann nefnir að kvóti hafi farið frá stöðunum sem eru allir sjávarbyggðir sem byggðu allt sitt á sjónum og Reyðarfjörður var á undanhaldi. „En þetta hefur gjörbreyst alveg,“ segir hann og nefnir að nú sé Reyðarfjörður orðið 1.100 manna þorp. „Þetta hefur haft áhrif eiginlega á alla Austfirði, ekki bara þessa staði hér, heldur alveg suður úr og norður úr.“

„Og er þetta svona almennt álit Austfirðinga?“ spurði þáttastjórnandi.

„Ég held nú allra þeirra sem hugsa eitthvað um þessi mál á annað borð. Auðvitað getur það verið að einhverjir hafi fundið fyrir öðru en ég held að það sé mikill minnihluti. Ég er alveg sammála prestinum á Heydölum, þetta hefur alveg gífurleg áhrif,“ sagði Steinn að lokum í þættinum „Í bítið“ á Bylgjunni.

Því má bæta við þessa jákvæðu umfjöllun um álverið og áhrif þess á samfélagið á Austurlandi að fyrir skemmstu greindum við frá því að könnun Viðskiptablaðsins hefði leitt í ljós að laun hafi hvergi verið hærri en í Fjarðabyggð árið 2015.

Forsida_mbl_half
Forsíða Morgunblaðsins 11. janúar 2003. Austfirðingar fögnuðu tilkomu álversins
og nú er ljóst hversu jákvæð áhrif það hefur haft á búsetu á Austurlandi.