23. febrúar 2017

Samfélagsstyrkur: Edrúlífið er fyrir alla

Ungmennafélagið Neisti hefur um árabil staðið fyrir forvarnarstarfi í formi fyrirlestra og fræðslu á Hammondhátíðinni á Djúpavogi undir merkinu „Edrúlíf fyrir alla.“ Í sumar var fyrirlestraröðin haldin í fjórða sinn en Alcoa Fjarðaál hefur verið einn helsti styrktaraðili hennar.

Pálmi Fannar Smárason, sjómaður á Djúpavogi er aðalhvatamaður Edrúlífsins og hann segir: „Það er algerlega Alcoa að þakka að við getum gert þetta á hverju ári. Við sjáum árlega aukningu í mætingu og í ár voru um 85 manns. Það eru unglingar, foreldrar, AA fólk og aðstandendur.  Og svo bara fólk sem hefur áhuga á því að lifa lífinu án áfengis.“

Að sögn Pálma Fannars hefur samkoman leitt í ljós fyrir mörgum að líf án áfengis sé alveg jafn skemmtilegt en bara meira töff. „Það er fólk frá Hornafirði og alla leiðina á Vopnafjörð sem hafa komið til okkar og margir ár eftir ár enda auglýsingum við Edrúlífið víða,“ segir hann að lokum.

 

Edrúlífið - Ilmur Kristjánsdóttir - ljósm Katrín Reynisdóttir

Ilmur Kristjánsdóttir, leikkona, var einn af fyrirlesurum Edrúlífsins 2016. Ljósmynd: Katrín Reynisdóttir.