01. febrúar 2017

Vinir Vatnajökuls styðja 18 verkefni auk sérstakra fræðslustyrkja

Vinir Vatnajökuls afhentu föstudaginn 27. janúar styrki sem sótt var um til samtakanna árið 2016. Athöfnin fór fram á veitingahúsinu Nauthóli í Reykjavík. Vinir Vatnajökuls eru frjáls félagasamtök sem voru stofnuð árið 2009 og hafa á sl. átta árum veitt um 160 styrki til fræðslu, rannsókna og kynningar á Vatnajökulsþjóðgarði og umhverfi hans samtals að upphæð hátt í 500 milljónir króna. Alcoa Fjarðaál er aðalbakhjarl samtakanna.

47 umsóknir bárust – 18 verkefni valin

Vinir Vatnajökuls óska árlega eftir styrkumsóknum en þær má senda inn á tímabilinu frá fyrsta ágúst til 30. september. Árið 2016 bárust samtökunum alls 47 styrkumsóknir þar sem óskað var eftir rúmlega 107 milljónum. Fagráð samtakanna valdi að styrkja 18 verkefni um rúmlega 17 milljónir. Þau eru talin upp neðst á þessari síðu.

Við styrkafhendinguna var sýnt brot úr kynningarmyndböndum frá Austur-Skaftafellssýslu sem samtökin styrktu í síðustu afhendingu.  Í umsókninni um það verkefni var tekið fram að náttúruperlurnar Skaftafell og Jökulsárlón sem eru vestast í sveitarfélaginu laða til sín mikinn fjölda ferðamanna. Framleiðandi myndbandanna vill leita leiða til að fjölga þeim ferðamönnum sem leggja leið sína alla leið til Hafnar og benda á þekkt svæði innan þjóðgarðsins, svo sem Hoffell og Heinaberg. Eftir sýninguna afhenti formaður stjórnar Vina Vatnajökuls Jónas Hallgrímsson styrki ársins 2016.

2017_Vinir_Vatnajokuls
Styrkþegar voru að vonum ánægðir með framlag Vina Vatnajökuls.

Önnur fræðsluverkefni

Fyrir utan styrkveitingarnar kusu Vinir Vatnajökuls að veita aukalega víðtæka styrki til fræðslumála um mikilvægi þessa stærsta þjóðgarðs í Evrópum. Samtökin veittu Vatnajökulsþjóðgarði styrk til að láta vinna fræðsluáætlun fyrir þjóðgarðinn. Auk þess hafa þau ákveðið að gefa öllum grunnskólum í landinu fræðslupakka sem inniheldur bækurnar Leiðsögn um Vatnajökulsþjóðgarð og Upplifðu náttúru Vatnajökulsþjóðgarðs með barninu þínu ásamt kvikmynd um Vatnajökulsþjóðgarð. Vinir Vatnajökuls ætla að gefa Vatnajökulsþjóðgarði bækurnar Leiðsögn um Vatnajökulsþjóðgarð á þremur tungumálum til að sem flestir geti notið bókanna.

Um Vini Vatnajökuls

Samtökin Vinir Vatnajökuls starfa í þeirri trú að styrkveitingar samtakanna séu landi og þjóð til gagns og ánægju. Margir hafa lagt hönd á plóginn til að gera samtökunum kleift að styrkja verkefni tengd kynningu, rannsóknum og fræðslu um Vatnajökulsþjóðgarð. Stærsti bakhjarl Vinanna er Alcoa Fjarðaál. Meðal annarra styrkveitenda má nefna Landsvirkjun, verkfræðistofuna Mannvit, Bílaleigu Akureyrar, Icelandair, N1, Íslenska erfðagreiningu, Odda og þá einstaklingar sem gerst hafa Vinir og veitt stuðning frá upphafi. Samtökin hvetja alla til að gerast Vini Vatnajökuls.

Á vefsíðu Vinir Vatnajökuls má sjá upplýsingar um flest styrktarverkefni samtakanna ásamt niðurstöðum.