20. mars 2017

Ævintýraferð í boði fyrir 16-18 ára nemanda á Mið-Austurlandi

Á undanförnum árum hefur 16-18 ára unglingum sem hafa áhuga á náttúru og vísindum, gefist kostur á þátttöku í leiðangri um Yosemite þjóðgarðinn í Kaliforníu eða Shenadoah þjóðgarðinn í Virginíu á vegum NatureBridge-samtakanna í tvær vikur ásamt öðrum unglingum á sama aldri. Samfélagssjóður Alcoa (Alcoa Foundation) greiðir allan ferða- og dvalarkostnað, frá Austurlandi og heim aftur. Umsóknarfrestur um styrkinn 2017 rennur út þann 1. apríl nk.

NatureBridge_logo

NatureBridge eru samtök sem bjóða upp á staðbundið nám fyrir börn og unglinga í þjóðgörðum í Bandaríkjunum. Árið 2014 styrkti Samfélagssjóður Alcoa alls 24 nemendur á aldrinum 16-18 ára frá tólf samfélögum þar sem Alcoa er með starfsstöð til þess að ferðast til Yosemite þjóðgarðsins í Kaliforníu og verja þar 10 dögum í gönguferðir, fræðslu og skemmtun. Rebekka Karlsdóttir, sem var þá nemandi á fyrsta ári í Menntaskólanum á Egilsstöðum var valin til þátttöku. Sjá frétt um það hér.  Árið 2015 voru tveir aðrir nemendur ME, Atli Berg Kárason og Ásgerður Hlín Þrastardóttir, valdir til þátttöku í (sjá umfjöllun í Fjarðaálsfréttum 2015 sem hægt er að nálgast hér). Í fyrra voru svo þrír þátttakendur valdir, Ólafur Tryggvi Þorsteinsson, Eggert Már Eggertsson og Mikael Arnarsson, en þeir eru allir menntaskólanemar frá Egilsstöðum.

Naturebridge_Header_Left

 

Auglýst eftir umsóknum 2017

Í ár verða 55 nemendur frá samfélögum þar sem Alcoa starfar víðs vegar um heim valdir til þess að taka þátt í leiðangri sem tekur tvær vikur. Hér er um ótrúlega gott tækifæri að ræða fyrir ungmenni sem hafa áhuga á umhverfi og náttúru, útivist og ferðalögum. Þetta verður ógleymanlegt ævintýri í hópi jafnaldra undir leiðsögn vísindamanna og reyndra leiðsögumanna.

Shenahoa_orig
Frá Shenandoah þjóðgarðinum

 

Nemendur geta valið um tvo staði (en geta líka sleppt því að tiltaka stað og látið lukkuna ráða).  Annars vegar er Shenadoah þjóðgarðurinn í Virginíu. Ferðalagið stendur frá 17.-29. júlí þannig að umsækjandi verður að geta ferðast á þeim tíma. Nú er í fyrsta skipti boðið upp á þennan stórkostlega þjóðgarð sem er skammt frá Washington DC, í fjallahéraði í Virginíu. Auk þess að fara í bakpokaferðalag um dali og fjöll verða merkilegir sögustaðir heimsóttir, þ.á.m. í höfuðborg Bandaríkjanna, Washington. Sjá nánar um Shenadoah þjóðgarðinn hér.

 

2_Asgerdur_Hlin_gonguferd
Þessa mynd tók Ásgerður Hlín Þrastardóttir í leiðangri sínum um Yosemite-þjóðgarðinn 2015.

 

Hins vegar er Yosemite-þjóðgarðurinn í Kaliforníu. Ferðalagið stendur frá 6. – 19. ágúst þannig að umsækjandi verður að geta ferðast á þeim tíma. Gist verður skálum í Crane Flat búðunum en þaðan verður farið í bakpokaferðalag um dali og fjöll. Sjá nánar um Yosemite þjóðgarðinn hér.

 

Nánar um styrkina
Styrkirnir frá Samfélagssjóði Alcoa verða veittir annars vegar á grundvelli umsókna frá nemandanum og hins vegar meðmæla með honum. Innifalið er: 

  • Ferðir fram og til baka til Íslands, alla leið til þjóðgarðsins.
  • Allur þátttökukostnaður í verkefninu (gisting, matur, fræðsla, o.fl.)
  • Kostnaður vegna vegabréfs ef það er ekki fyrir hendi.
  • Kostnaður vegna vegabréfsáritunar, ef þarf.

Ef þú vilt kynna þér verkefnið betur og fylla út umsókn, smelltu hér. Ath. að allt efnið er á ensku.

Hver umsókn samanstendur af þessum þáttum – allt á stöðluðum eyðublöðum á ofangreindri síðu:

  • Umsóknareyðublað. Hlaðið því niður í PDF, fyllið út og vistið með skjalaheiti skv. fyrirmælum. Það getur líka verið góð hugmynd að hlaða niður PDF-skjalinu, fylla það út og færa svörin inn í rafræna umsókn.
  • Meðmælabréf (t.d. kennari, þjálfari, formaður björgunarsveitar o.s.frv.). Prentið út eyðublaðið, biðjið viðkomanda að skrifa á það, skannið og sendið með umsókninni. Viðkomandi getur einnig fyllt út rafrænt meðmælabréf.
  • Skráningarblað þátttakanda, sem foreldri eða forsjármaður fyllir út.
  • Samningur við nemandann.

FYRIR FORELDRA: Athugið að hópur sérvaldra ábyrgðarmanna fer með unglingunum, og m.a. er tiltækt hjúkrunarfólk ef eitthvað kemur upp á, þannig að þið þurfið ekki að hafa áhyggjur af þeim.

Umsóknarfrestur rennur út þann 1. apríl nk.

Ath. að þátttakendur verða að búa yfir mjög góðri enskukunnáttu.

Ef þér finnst þú ekki finna nægilegar upplýsingar á ofangreindri vefsíðu (hér) er þér velkomið að hafa samband við Önnu Heiðu Pálsdóttur í s. 698-9170 eða með tölvupósti, anna.palsdottir (hjá) alcoa.com.