14. mars 2017

Safe seat sigraði Gulleggið 2017

Viðskiptahugmyndin Safe Seat, sem er fjaðrandi bátasæti sem verndar hryggsúluna í erfiðu sjólagi, sigraði Gulleggið 2017, frumkvöðlakeppni Icelandic Startups. Forstetafrú Eliza Reid og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra afhentu verðlaunagripinn Gulleggið 2017 við hátíðlega athöfn í Hörpu laugardaginn 11. mars. Alcoa Fjarðaál er einn af helstu bakhjörlum keppninnar og upplýsingafulltrúi fyrirtækisins, Dagmar Ýr Stefánsdóttir, sat í dómnefnd.

Sigurvegararnir hlutu að launum 1.000.000 kr. styrk frá Landsbankanum.

Í öðru sæti var S. Stefánsson & Co., en þau hanna hágæða útivistarfatnað, einangraðan með íslenskum æðardún. Þau hlutu jafnframt að launum 500.000 kr. styrk frá Landsbankanum.

Í þriðja sæti var hugmyndin Project Monsters, sem er einstaklingsmiðaður námsleikur sem eykur færni og skilning og er ætlað að veita skólum forskot inn í framtíðina. Þau hlutu að launum 300.000 kr. styrk frá Landsbankanum.

Aukaverðlaun

 • KPMG veitir 20 ráðgjafatíma // Stefánsson & Co.
 • ADVEL lögmenn veita 10 klst. lögfræðiráðgjöf // Procura Home
 • Marel á Íslandi veitir 10 klst ráðgjöf sérfræðinga úr sínum röðum // Safe Seat
 • Frumtak Ventures veitir hópmarkþjálfun hjá Svövu Bjarnadóttur, stjórnendamarkþjálfa hjá Kapituli ehf // Project Monsters
 • Íslandsstofa fá að launum sæti í aðallínu Útlínu // Stefánsson & Co
 • Dale Carnegie veitir öllum þátttakendum í topp tíu teymunum gjafakort á námskeiðin Sala og Árangursrík framsögn

Nútíminn stóð jafnframt fyrir vali fólksins sem er opin netkosning, en þá viðurkenningu hlaut fyrirtækið BlissApp. Forritið er ætlað að veita þeim sem ekki geta tjáð sig með hefðbundnum hætti, s.s. fötluðum eða einhverfum, aukið frelsi til samskipta.

2017_0311_21544100-01 (1)
Handhafar Gulleggsins ásamt aðstandendum keppninnar.

Gulleggið er haldið á vegum Icelandic Startups í samstarfi við Háskóla Íslands, Háskólann í Reykjavík, Bifröst og Listaháskóla Íslands með stuðningi lykilaðila í íslensku atvinnulífi. Í ár fagnar Gulleggið tíu ára afmæli en yfir 2.300 hugmyndir hafa borist í keppnina frá upphafi. Ár hvert hafa tíu hugmyndir verið valdar í sérstakan úrvalshóp. Af þeim 100 viðskiptahugmyndum sem eru í þeim hópi er tæplega helmingur þeirra enn virkar. Samanlögð áætluð velta þeirra árið 2016 var um 3,7 milljarðar króna. Þá hafa þessi fyrirtæki skapað yfir 300 störf og 38% einstaklingar úr þeim hópi stofnað enn annað fyrirtæki.

Í ár bárust 125 viðskiptahugmyndir, en keppnin hefur staðið yfir síðustu tvo mánuði. Þátttakendur hafa sótt námskeið og fengið þjálfun í mótun viðskiptahugmynda og leiðsögn við uppbyggingu nýrra fyrirtækja. Fulltrúar tíu stigahæstu viðskiptaáætlananna kynntu hugmyndir sínar fyrir dómnefnd á laugardaginn.

 • Barnamenningarhús- Samkomustaður þar sem börnum býðst að upplifa fjölbreyttar listgreinar á einum stað og fá útrás fyrir sköpunargleði sína.
 • BlissApp– Samskiptaforrit fyrir fólk sem notar óhefðbundin tjáskipti.
 • Stefánsson & Co. – Hanna hágæða útivistarfatnað einangraðan með íslenskum æðardún.
 • Fjölskyldumyllan– Ráðgjafafyrirtæki sem fræðir og ráðleggur foreldrum um allt það sem kemur að uppeldi barna og unglinga.
 • HappaGlapp– Skafmiðaforrit fyrir snjallsíma.
 • LabFarm– Tengir saman tölvukrafta háskóla um allan heim til að stuðla að hagkvæmari nýtingu og lægri rekstrarkostnaði.
 • League Manager – Hugbúnaður sem auðveldar skipulagningu íþróttamóta.
 • Procura Home – Vefrænt sölu- og verðmatskerfi fasteigna.
 • Project Monsters – Einstaklingsmiðaður námsleikur sem ætlað er að auka námsfærni og –skilning.
 • SAFE seat – Fjaðrandi bátasæti sem verndar hryggsúluna í erfiðu sjólagi.

 

Um Gulleggið

Icelandic Startups stendur árlega fyrir frumkvöðlakeppninni Gullegginu en keppnin er haldin að fyrirmynd MIT háskóla í Bandaríkjunum. Meginmarkið keppninar er að skapa vettvang fyrir ungt athafnafólk til að öðlast þjálfun og reynslu í mótun nýrra viðskiptahugmynda og rekstri fyrirtækja.

2017_0311_22001500-01
Sigurvegararnir fengu verðlaunin fyrir hugmyndina „Safe Seat."

2017_0311_22012800-01
Í öðru sæti var S. Stefánsson & Co.

2017_0311_22035700-01
Í þriðja sæti var hugmyndin Project Monsters