30. mars 2017

Samningur við Austurbrú um Sjálfbærniverkefni endurnýjaður

Þann 29. mars var skrifað undir samning milli Landsvirkjunnar, Alcoa Fjarðaáls og Austurbrúar um að Austurbrú sjái um viðhald og þróun Sjálfbærniverkefnisins næstu þrjú árin.

Sjálfbærniverkefnið var stofnað af Alcoa Fjarðaáli og Landsvirkjun árið 2004 til að vakta áhrif framkvæmda við Kárahnjúkavirkjun og álversins í Reyðarfirði á samfélag, umhverfi og efnahag á Austurlandi.

Í upphafi skilgreindi samráðshópur, skipaður fulltrúum samfélagsins, hvaða málefni væru mikilvægust út frá áhyggjum og væntingum fólks í tengslum við framkvæmdirnar og mótaði út frá því tillögur að vísum. Vísarnir eru 45 og mælikvarðarnir 78 og eru þeir flokkaðir í samfélagsvísa, umhverfisvísa og efnahagsvísa. Mælingar á þessum vísum hafa nú staðið yfir í 10 ár.

Austurbrú hefur hefur annast umsjón verkefnisins síðan 2013. Verkefnið er aðgengilegt öllum á vefnum www.sjalfbaerni.is.

Grunnur að rannsóknum

Upplýsingasafn Sjálfbærniverkefnisins fer vaxandi ár frá ári og notagildi þess eykst jafnt og þétt. Margvísleg tækifæri til greininga og túlkunar liggja í gagnasafninu. Auk þess að varpa ljósi á þróun mála á Austurlandi gætu niðurstöður nýst á ýmsan hátt, t.d. til greininga og rannsókna á samfélagsþróun, við þróun hugmynda og verklags verkefna sem lúta að samfélagslegri ábyrgð fyrirtækja og margt fleira.

Alcoa Fjarðaál og Landsvirkjun hafa fullan hug á að halda Sjálfbærniverkefninu áfram á komandi árum og er það metnaðarmál allra sem að því koma að haldið sé tryggð við þau grundvallarsjónarmið sem verkefnið var byggt á í upphafi og jafnframt að það þróist og hafi notagildi fyrir samtímann hverju sinni.

Magnús Þór Ásmundsson, forstjóri Alcoa Fjarðaáls:

„Sjálfbærniverkefnið fagnar þeim tímamótum að nú hefur staðið yfir söfnun gagna í 10 ár eða jafnlengi og álverið hefur verið starfrækt. Það er vert að þakka bæði samstafsaðilum okkar hjá Landsvirkun og þeim sem hafa umsjón með verkefninu hjá Austurbrú það góða samstarf og samstöðu sem ríkir um þetta verkefni. Á þessum tíma hefur byggst upp mikill gagnagrunnur með upplýsingum um áhrif virkjunar- og álversframkvæmda hér á Austurlandi á efnahag, samfélag og umhverfi. Vonandi munu þessi gögn nýtast í framtíðinni til frekari rannsókna, til dæmis fyrir háskólasamfélagið.“

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar:

„Það hefur verið ánægjulegt að fylgjast með þessu góða verkefni og hvernig það hefur þróast og mótast eftir því sem aðstæður hafa kallað á og lærdómur gefið tilefni til. Við erum þess fullviss að niðurstöður rannsóknarinnar, hinir svokölluðu sjálfbærnivísar, munu í framtíðinni verða merkileg heimild, auk þess að verða grundvöllur til að byggja á þegar ráðast á í hverskonar framkvæmdir sem áhrif hafa á samfélagið.“

 

Austurbru_2

Samningurinn var undirritaður í húsnæði Austurbrúar að Vonarlandi á Egilsstöðum; f.v. Sigurður Guðni Sigurðsson deildarstjóri vatnsaflsdeildar Landsvirkjunar, Jóna Árný Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Austurbrúar og Magnús Þór Ásmundsson forstjóri Alcoa Fjarðaáls.