11. apríl 2017

Afmælisfögnuður hafinn hjá Fjarðaáli

Fimmtudaginn 6. apríl gerði starfsfólk Fjarðaáls sér glaðan dag og hélt upp á 10 ára starfsafmæli verksmiðjunnar. Boðið var upp á veislumat í matsal Fjarðaáls sem var skreyttur til að hæfa tilefninu. Sóli Hólm, skemmtikrafturinn knái, sá til þess að hinn gríðarstóri matsalur Fjarðaáls fylltist af hlátri.

ZR9A9874
Magnús Þór Ásmundssson, forstjóri Alcoa FJarðaáls er ánægður með tryggð starfsfólks fyrirtækisins.

Þá hélt Magnús Þór Ásmundsson forstjóri Fjarðaáls stutta ræðu og minntist meðal annars á það að nýverið voru ríflega 70 manns heiðraðir á árshátíð fyrirtækisins fyrir að hafa náð 10 ára starfsafmæli og á næsta ári verður sá fjöldi yfir 100. Það er því ljóst að margir halda tryggð við fyrirtækið og hafa fylgst með því slíta barnsskónum.

ZR9A9878
Tómas Már Sigurðssson, aðstoðarforstjóri Alcoa Corporation, sló á létta strengi.

Tómas Már Sigurðsson sem nú gegnir starfi aðstoðarforstjóra Alcoa Corporation var viðstaddur afmælisfögnuðinn en Tómas var fyrsti forstjóri Fjarðaáls. Tómas rifjaði upp sögur frá fyrstu starfsárum verksmiðjunnar og meðal annars sagði hann söguna af því þegar verksmiðjan var vígð fyrir 10 árum síðan og hingað kom margt mektarfólk til að vera viðstatt og taka þátt. Þeirra á meðal var þáverandi forsætisráðherra sem var einn þeirra sem klippti á borðann. Hann lenti í því að vera tekinn í öryggistékk hjá byggingarverktakanum Bechtel sem þá sá um öryggismálin hjá Fjarðaáli en ráðherra þurfti að skila inn þvagsýni til að fá aðgang að svæðinu.

Að sjálfsögðu var boðið upp á afmælisköku og hún var af stærri gerðinni líkt og sjá má á myndunum.

Formlegur afmælisdagur Fjarðaáls er 12. apríl en þar sem daginn ber upp í dymbilviku þá var ákveðið að taka forskot á sæluna og fagna afmælinu innanhúss þann 6. apríl. En þess ber að geta að Fjarðaál er hvergi nærri búið að halda upp á afmæli sitt og ættu íbúar á Austurlandi að taka frá 26. ágúst næstkomandi en þá verður blásið til veglegrar afmælisveislu sem öllum Austfirðingum verður boðið að taka þátt í – nánar um það síðar.

ZR9A9779
Afmælistertan sem Lostæti útbjó var girnileg.

ZR9A9847
Starfsfólkið skemmti sér vel á afmælishátíðinni.

ZR9A9787
Listilega skreytt afmælisterta.