11. apríl 2017

Öll ker hafa verið endurfóðruð í kerskála Fjarðaáls

Föstudaginn 31. mars var því fagnað hjá Alcoa Fjarðaáli að nú er búið að endurfóðra öll kerin í kerskála Fjarðaáls frá fyrstu kynslóð en kerin eru samtals 336. Einnig var þess minnst að þann dag fyrir 10 árum síðan var álverið vígt með hátíðlegri athöfn.

Í hverju keri eru framleidd um þrjú tonn af áli á dag.  Rafmagn er notað til að kljúfa súrálið í hreint ál og súrefni í rafgreiningarlausn sem inniheldur meðal annars kríólít og  natríum-álflúroíð. Hreint, fljótandi ál fellur til botns í kerunum en það er sogað upp reglulega og flutt í deiglum yfir í steypuskála. Hvert ker er gert úr stálskel og fóðrað að innan með bakskautum úr kolefnisblöndu og hitaþolnum efnum.

Líftími hvers kers, þ.e. fóðringarinnar í kerinu, er yfirleitt um 5-7 ár. Þar sem besta fáanlega tækni er notuð, eins og hjá Fjarðaáli, er hægt að lengja líftíma keranna en það leiðir bæði til sparnaðar og minni umhverfisáhrifa. Þegar ljóst er að fóðringin er komin að leiðarlokum er kerið tæmt og rafmagn tengt framhjá því. Þá er kerið flutt yfir í kersmiðjuna þar sem byrjað er á að kæla það.

Eftir kælingu er gamla fóðringin brotin innan úr kerunum og þau hreinsuð vel. Innihaldið er flokkað í kolefni og önnur efni sem fara í endurvinnslu í Bretlandi og eru fullnýtt í ýmsum iðnaði t.d. í sement. Flest álver í heiminum urða kerbrotin en endurvinnsla kerbrota, rafskautaleifa og álgjalls er mikilvæg fyrir Fjarðaál þar sem nú eru 99,5% aukaafurða endurunnar og fyrirtækið stefnir á 100%.

Í kersmiðjunni, sem byggð var árið 2012 er hægt að fóðra þrjú ker í einu og mestu afköst eru um  tvö og hálft ker á viku. Á föstudaginn luku starfsmenn kersmiðju endurfóðrun síðasta kersins af þeim sem ræst voru í upphafi starfseminnar fyrir 10 árum.  

Smári Kristinsson framkvæmdastjóri álframleiðslu segir: „Í ljósi þess að nú eru öll ker með tiltölulega nýja fóðrun þá ættum við að vera að sigla inn í tímabil þar sem lítið verður um kerfóðrun ef vel gengur. Það skapast því möguleikar til að ná góðri framleiðni og markmiðið er að tryggja að svo verði fram að næstu endurfóðrunarlotu sem má búast við að hefjist um mitt ár 2019.  Vonandi tekst okkur að halda líftíma kera góðum og gera enn betur hvað það varðar í framtíðinni. Þess má geta að líftími keranna í fyrstu kynslóð reyndist afar góður og meðal annars náðum við að reka eitt kerið í níu ár sem er frábær árangur.“

2012_06_potlining2_large

Starfsmenn fóðra ker að innan í kersmiðju Fjarðaáls. Bygging hennar kostaði um 4,6 milljarða en hún var opnuð 2012 og skapaði um 70 ný störf í álverinu