11. maí 2017

Grænt bókhald Fjarðaáls nú hluti af samfélagsskýrslu

Á hverju ári skilar Alcoa Fjarðaál inn grænu bókhaldi til Umhverfisstofnunar, ásamt skýrslu sem Náttúrustofa Austurlands og Nýsköpunarmiðstöð Íslands vinna fyrir fyrirtækið. Í ár varð sú breyting að grænu bókhaldi er ekki skilað einu og sér, heldur er það hluti af samfélagsskýrslu Alcoa Fjarðaáls.

Ástæðan fyrir því að Alcoa Fjarðaál velur að gera samfélagsskýrslu er sú að fyrirtækið vill auka gegnsæi og upplýsingagjöf um starfsemi fyrirtækisins og áhrif hennar á umhverfi, samfélag og efnahag. Við skýrslugerðina eru viðmið Global Reporting Initiative (GRI G4) höfð til hliðsjónar en skýrslan er unnin í samstarfi við vottaðan GRI ráðgjafa. Markmiðið er að skýrslan uppfylli alþjóðlega staðla um samfélagsábyrð
Alcoa setur sér mjög strangar kröfur í umhverfismálum og umhverfisvernd er þungamiðja í starfsemi fyrirtækisins um allan heim. Fyrirtækið vinnur að stöðugum umbótum og er meðvitað um þá ábyrgð að lágmarka þau áhrif sem starfsemin hefur á umhverfið.

Magnús Þór Ásmundsson, forstjóri Fjarðaáls, segir m.a. í ávarpi sínu í skýrslunni að nú hafi bæst við ítarlegri kaflar en áður hafa verið í Græna bókhaldinu um efnahags-, samfélags- og mannauðsmál.

Góð orkunýting og notkun endurnýjanlegrar orku
„Hjá Fjarðaáli leggjum við áherslu á að starfa í sátt við samfélagið og að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum sem af stafseminni verða,“ segir Magnús Þór í ávarpinu. „Þannig er góð orkunýting og notkun endurnýjanlegrar orku forgangsmál hjá Alcoa Fjarðaáli. Álverið er knúið áfram með endurnýjanlegri raforku sem á uppruna sinn í Kárahnjúkavirkjun. Annað dæmi um orkunýtingu er að varmi kælivatns frá steypuskálanum er endurnýttur til húshitunar húshitunar á lóð Fjarðaáls. Þá er vatnið endurnýtt þar sem það er í lokuðu kerfi og ekkert framleiðsluvatn er losað frá verksmiðjunni til sjávar og regnvatn af lóðinni er leitt í gegnum náttúrulega hreinsun í settjörnum.“

Fjarðaál stendur sig vel á fleiri sviðum umhverfismála og má þar nefna minnkaða losun á flúorefnum frá verksmiðjunni og hæsta endurvinnsluhlutfall sem þekkist innan Alcoa samsteypunnar. 

Markmiðið er slysalaus vinnustaður
Magnús Þór segir: „Öryggismenning er mikilvægur þáttur í starfsemi Fjarðaáls og felst fyrst og fremst í því að ekkert verk er það mikilvægt að það réttlæti að starfsmaður setji sjálfan sig í hættu. Til að tryggja markmið félagsins um slysalausan vinnustað fylgja allir starfsmenn eftir öguðum vinnubrögðum og notkunar tilgreinds öryggisbúnaðar. Ennfremur er lögð rík áhersla á markvissa upplýsingagjöf, menntun, þjálfun og endurskoðunar á öryggiskerfum ásamt nýsköpun til að stuðla að bættri öryggismenningu.“

Styrkir yfir 100 milljónir króna
„Styrkir til nærsamfélagsins eru mikilvægur þáttur í starfsemi Fjarðaáls en á hverju ári ver fyrirtækið yfir 100 milljónum króna í margvísleg samfélagsverkefni og þá hvetur fyrirtækið starfsfólkið til að taka þátt í sjálfboðaliðavinnu. Sérstakir kaflar í skýrslunni eru tileinkaðir mannauðs- og samfélagsmálum þar sem betur má lesa um vinnuskilyrði starfsfólks Fjarðaáls og samstarf við nærsamfélagið. Alcoa Fjarðaál er eitt stærsta iðnfyrirtæki á Íslandi og mikilvægt í efnahagslegu tilliti.,“ segir Magnús Þór.

Þjóðfélags-, umhverfis- og samfélagsmál
Á síðasta ári flutti Alcoa Fjarðaál út vörur fyrir 71 milljarð króna og þar af urðu 39% eftir í landinu. Fyrirtækið greiddi einn milljarð króna í skatta og opinber gjöld á Íslandi.

Framtíðarsýn Alcoa Fjarðaáls í samfélagsábyrgð felst í því að vera í fararbroddi á sviði þróunar, nýsköpunar og framfara í áliðnaði heimsins og á sama tíma að taka þátt í að styrkja stoðir samfélagsins á Austurlandi.

„Félagið hyggst með markvissum hætti starfa í sátt við umhverfið í samræmi við þá áherslu sem Alcoa leggur á umhverfismál um allan heim. Markmið fyrirtækisins er að takmarka neikvæð umhverfisáhrif, vinna í anda sjálfbærrar þróunar og taka virkan þátt í baráttunni við loftslagsbreytingar,“ segir Magnús að lokum.

Samfélagsskýrsluna, sem er 38 síðna myndskreytt blað, er hægt að nálgast hér: Download 2016 Samfelagsskyrsla_lokaeintak  (pdf, 2 MB).

 

2017_samfelagsskyrsla