22. maí 2017

Málmurinn sem á ótal líf

„Málmurinn sem á ótal líf“ var yfirskrift ársundar Samáls 2017 sem haldinn var í Kaldalóni í Hörpu að morgni 11. maí. Fjallað var um mikilvægi áliðnaðar fyrir efnahagslífið á Íslandi og umfang endurvinnslu áls í hnattrænu samhengi.

2017_Samal_aheyrendur
Fjölmennt var á fundinum.

Samhliða ársfundinum var sýning á nýjustu árgerð Jaguar, en ál hefur löngum verið í öndvegi við framleiðslu þeirra bíla og hóf BL nýverið sölu á þeim. Þá var Minkurinn til sýnis, smáhjólhýsi sem er íslensk hönnun og til stendur að framleiða úr áli.

2017_Samal_hjolhysi
Minkurinn - íslenskt hjólhýsi úr áli.

Á fundinum voru flutt mörg áhugaverð erindi sem hægt er að finna á heimasíðu Samáls, www.samal.is. Þeirra á meðal er erindi Rannveigar Rist stjórnarformanns Samáls, „Staða og horfur í íslenskum áliðnaði.“ Í máli hennar kom m.a. fram að innlend útgjöld námu tæpum 80 milljörðum ásíðasta ári, en þar af fóru um 22,5 milljarðar í kaup á vörum af þjónustu af hundruðum fyrirtækja og er þá raforka undanskilin.

Þá ávarpaði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, iðnaðarráðherra, fundargesti en hún vakti athygli á því að hver vinnandi hönd í áliðnaðinum skapar mun meiri verðmæti en í nánast öllum öðrum atvinnugreinum.

2017_Samal_idnadarradherra
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, iðnaðarráðherra.

Ál er þeim eiginleika gætt að það má endurvinna aftur og aftur án þess það tapi upprunalegum eiginleikum sínum, enda er 75% af öllu því áli sem framleitt hefur verið frá upphafi er enn í notkun. Þetta var á meðal þess sem fram kom í erindi Ron Knapp framkvæmdastjóra International Aluminium Institute.

„Ál fyrir umhverfið“ var yfirskrift erindis Ernu Gísladóttur forstjóra BL. Ál er lagt til grundvallar við framleiðslu Jaguar, Range Rover og Land Rover, en allar þær bílategundir eru seldar hjá BL. Ál létti bifreiðarnar, sem verða sparneytnari fyrir vikið og losa minna af gróðurhúsalofttegundum.

„Álfyrirtæki hafa verið í fararbroddi í umhverfis- og öryggismálum á Íslandi,“ sagði Bryndís Skúladóttir, sviðsstjóri framleiðslusviðs Samtaka iðnaðarins meðal annars í erindi sínu sem bar yfirskriftina „Leiðin að minni losun.“

Eftir kynningu Kolbeins Björnssonar frumkvöðuls á smáhjólhýsinu Minkurinn, sem er íslensk hönnun, þar sem ál gegnir mikilvægu hlutverki, flutti Pétur Blöndal framkvæmdastjóri Samáls, lokaorð. Hann benti á fjölmarga kosti áls, til dæmis vegna endurvinnslu en hún sparar orku og dregur úr losun.

Fundarstjóri var Dagmar Ýr Stefánsdóttir,upplýsingafulltrúi Alcoa Fjarðaáls.

2017_Samal_Dagmar_Yr_Stefansdottir
Dagmar Ýr Stefánsdóttir frá Alcoa Fjarðaáli.

2017_Samal_Elin_Dagny_Gudny
Þær stöllur (t.f.v.) Elín H. Einarsdóttir, Dagný Björk Reynisdóttir og Guðný Björk Hauksdóttir voru meðal starfsmanna Fjarðaáls sem mættu á fundinn.

2017_Samal_Magnus_Thor_Asmundsson