24. maí 2017

„Stelpur og tækni“ í heimsókn hjá Fjarðaáli

Háskólinn í Reykjavík hefur í nokkur ár staðið fyrir verkefninu „Stelpur og tækni“ þar sem tækni- og verkfræðigeirinn er kynntur fyrir stúlkum í efstu bekkjum grunnskóla til að auka áhuga þeirra á slíkum greinum þegar þær fara að huga að því að velja sér nám að loknum framhaldsskóla. Fyrir tveimur árum veitti Alcoa HR styrk til þess að stúlkur á landsbyggðinni fengju tækifæri til að fara til Reykjavíkur og taka þátt í þessum degi. Í ár fékk HR styrk frá menntamálaráðuneytinu til þess að halda daginn ekki aðeins í Reykjavík heldur einnig á landsbyggðinni. Stúlkum í efstu bekkjum grunnskóla á Austurlandi, Ísafirði og Akureyri var boðin þátttaka í „Stelpur og tækni“ degi í sinni heimabyggð.

Þriðjudaginn 16. maí komu unglingsstúlkur úr grunnskólum í Fjarðabyggð í heimsókn til Alcoa Fjarðaáls til þess að kynnast tæknistörfum sem þar eru í boði. Nokkrir af kvenkyns verk- og tæknifræðingum Fjarðaáls sögðu stúlkunum frá því námi sem þær völdu í háskóla og hvernig leið þeirra lá svo til Alcoa Fjarðaáls í kjölfarið. Sögur þeirra voru mismunandi en allar voru þær sammála um að störfin sem þær sinna eru alveg jafn mikið fyrir konur og karla. Engin þeirra hafði endilega lagt af stað í nám með því markmiði að vinna í áliðnaði, en námið eða starfsreynsla leiddi þær til Fjarðaáls. Allar voru þær sammála um að starf þeirra væri ánægjulegt. Þrátt fyrir að starfa í umhverfi þar sem karlar eru í meirihluta segjast þær ekki hafa fundið fyrir fordómum í sinn garð vegna kyns.

Hildur_Einarsdottir
Hildur Einarsdóttir, tæknifræðingur í kerskálateymi. Í bakgrunni er Dagmar Ýr Stefánsdóttir, upplýsinga fulltrúi Fjarðaáls.

Hildur Einarsdóttir, tæknifræðingur í kerskálateymi hvatti stúlkurnar til að vera óhræddar og að það væri allt í lagi að mistakast, hún hefði í eitt skipti fallið í stærðfræði en það merkti ekki að öll vinnan væri fyrir bí og að ekki væri hægt að ná markmiðum sínum. „Maður þarf ekki að vera fullkominn til að ná góðum árangri í lífinu,“ sagði hún.

Birna_Ingadottir
Birna Ingadóttir, áreiðanleikasérfræðingur í kerskála, ávarpaði gestina.

Birna Ingadóttir, áreiðanleikasérfræðingur í kerskála sagði stúlkunum frá því að hún hefði á sínum tíma hafið nám í efnaverkfræði en komist að því þegar ár var liðið að þetta var ekki það sem hana langaði að starfa við í framtíðinni. Hún skipti því yfir í rekstrarverkfræði og fann sig algjörlega þar. Í dag vinnur hún m.a. við greiningar á viðhaldsgögnum með því leiðarljósi að auka uppitíma búnaðar og finnst það mjög spennandi. 

Á kynningunni tóku einnig til máls þær Erna Guðrún Þorsteinsdóttir vélaverkfræðingur í kerskála, Hekla Kolka Hlöðversdóttir vélaverkfræðingur í skautsmiðju og Védís Vaka Vignisdóttir, rekstrarverkfræðingur í steypuskála.

Ahugasamir_aheyrendur

XP1C1A4485
Stelpurnar hlustuðu af athygli á kynningarnar.