06. október 2017

Öflugir sjálfboðaliðar Alcoa í sex árangursríkum samfélagsverkefnum

Á árinu 2017 hafa starfsmenn Alcoa, fjölskyldur þeirra, vinir og fleiri unnið sex sjálfboðaliðaverkefni sem auk vinnu fólksins hafa skilað um tveimur milljónum króna til ýmissa félagasamtaka á Austurlandi.

Í frétt sem birtist hér á heimasíðu Alcoa í júlí var fjallað um tvö fyrstu Action-verkefnin en þau voru unnin fyrir Félag eldri borgara á Reyðarfirði og Knattspyrnufélag Fjarðabyggðar.

Hjaltalundur og Sláturhúsið

Um miðjan ágúst var ráðist í verkefni fyrir Hollvinasamtök Hjaltalundar sem er félagsheimili á Fljótsdalshéraði en alls mættu þangað yfir fimmtíu sjálfboðaliðar að meðtöldum börnum. Þeir hellulögðu tröppur niður að Hjaltalundi og heimreiðin og skógræktin var snyrt. Þá var einnig sett kurl í göngustíga. Action-styrkur að upphæð kr. 322.000 kom sér vel til kaupa á hellum og jarðvinnu.

Þann 21. september var ráðist í endurbætur á hinu svokallaða græna herbergi í Sláturhúsinu á Egilsstöðum. Græna herbergið er fyrst og fremst hugsað sem æfingahúsnæði fyrir ungt fólk í tónlist og einnig er þar ágætt hljóðupptökustúdíó. Um áttatíu ungmenni hafa aðgang að þessu herbergi og er það vel nýtt í ýmis listatengd verkefni. Verkefnin fyrir sjálfboðaliðana, sem voru um tuttugu alls, reyndust ærin en þeir máluðu veggi, tóku til og settu upp hljóðeinangrandi skilrúm. Action-styrkurinn nýtist svo vel til að fullgera húsnæðið en Alcoa vill búa vel að upprennandi listafólki.

Björgunarsveitin Gerpir

Síðasta Action-verkefnið var unnið þann 30. september fyrir björgunarsveitina Gerpir í Neskaupstað. Björgunarsveitin keypti fyrr í september húsnæði að Nesgötu 4, við hliðina á aðalhúsnæði sveitarinnar að Nesvegi 6. Sveitin þurfti margar góðar hendur til að flytja dósamóttökuna sína og búnað sem tilheyrir flugeldasölu og sýningum yfir í nýja húsnæðið. Sjálfboðaliðarnir sinntu auk þess málningarvinnu, hilluuppsetningu o.fl. Verkefnið heppnaðist mjög vel og Alcoa óskar björgunarsveitinni til hamingju með nýja húsnæðið.

Gengið til styrktar tækjakaupum FSN

Önnur tegund sjálfboðaliðastarfs hjá Alcoa er kölluð á ensku „Alcoans in Motion.“ Hún felst í því að a.m.k. 8 starfsmenn fyrirtækisins taka sig saman og stunda einhvers konar hreyfingu. Á undanförnum árum hafa starfsmenn til dæmis synt og styrkt með því aðhlynningu aldraðra á fimm stöðum, ásamt því að ganga á fjöll og í fjöru til styrktar góðu málefni. Laugardaginn 19. ágúst efndi heilsueflingarnefnd Fjarðaáls til atburðar sem hún kallaði „Samvera fyrir alla fjölskylduna í dásamlegu umhverfi.“ Sjálfboðaliðar, ásamt fjölskyldum sínum, gengu 1,5 km í góðu veðri í  Hallormsstaðarskógi. Eftir gönguna var farið í leiki og síðan var grillaður matur í boði. Að þessu sinni rann styrkurinn, 322.000 kr. til FSN sem á 60 ára starfsafmæli í ár og hann mun verða notaður til tækjakaupa.

Nú er öllum sex sjálfboðaliðaverkefnunum lokið og Alcoa þakkar bæði starfsmönnum, fjölskyldum þeirra og öðrum sjálfboðaliðum fyrir þátttökuna en vinna þeirra skiptir miklu máli fyrir samfélagið.

 

Gerpir_5

Frá sjálfboðaliðaverkefninu fyrir björgunarsveitina Gerpi.


Gerpir_5

Frá sjálfboðaliðaverkefninu fyrir björgunarsveitina Gerpi.


Gerpir_5

Frá sjálfboðaliðaverkefninu fyrir björgunarsveitina Gerpi.