31. október 2017

Vel heppnuð jeppaferð Austurlandsdeildar 4x4 með skjólstæðinga félagsþjónustunnar

Laugardaginn 21. október bauð Austurlandsdeild 4x4 skjólstæðingum félagsþjónustunnar og aðstoðarmönnum þeirra í jeppaferð. Félagið hefur boðið upp á slíka ferð á hverju ári í sjö ár og hún hefur ávallt vakið hrifningu gestanna. Alcoa Fjarðaál styrkti ferðina í ár, sem og á nokkrum fyrri árum.

Valdimar Aðalsteinsson hjá Austurlandsdeildinni segir: „Ferðin tókst vel í alla staði og var okkur gefandi og farþegunum ánægjuleg og skemmtileg.“ Þátttakendur söfnuðumst saman við Shellskálann á Egilsstöðum um kl 12:30 og þar var ákveðið hvernig yrði skipt yrði niður í bílana og einnig hverjir yrðu farþegalausir. Síðan var farið að heimilum farþeganna og hver jeppi tók sitt fólk og ók upp að Shellskála þaðan sem lagt var af stað kl. 13:00.

Bragðað á brimfroðu í Vöðlavík

Á Reyðarfirði slógust tveir bílar í hópinn og einn bíll frá Neskaupstað beið við sundlaugina á Eskifirði, en þar var tekin smá hvíldarstund til að fara út og teygja aðeins úr sér. Síðan var ekið sem leið lá út með Reyðarfirði og yfir Vaðlavíkurheiði. „Eitthvað varð vart við óróleika hjá sumum farþeganna þegar sýnt var að aka átti yfir læk,“ segir Valdimar, „enda fólkið minnugt lækjarævintýris fyrir ári síðan.“ Farþegar róuðust þó þegar ljóst var að aðeins átti að „skola dekkin.“  

Þegar niður í Vöðlavík var komið óku bílstjórarnir „niður á sand“ en þar var stoppað og fóru þeir út sem treystu sér til. „Frekar hvasst var og töluvert brim sem flestir heilluðust af og jafnvel var smakkað á brimfroðunni,“ segir Valdimar og bætir við: „En ekki líkaði smakkaranum bragðið meira en svo að hann hrækti hraustlega á eftir.

Heimsókn í Fjarðaál

Valdimar heldur áfram: „Eftir fjöruferðina var ekið í rólegheitum til baka og fengu nokkrir sér fegrunarblund á þeirri leið til þess að líta sem best út þegar komið yrði í heimsókn til Alcoa.“  Ferðalangarnir komu í Fjarðaál um kl. 16:00 en þar tók Hilmar Sigurbjörnsson hjá mannauðsteymi Fjarðaáls á móti þeim. Í mötuneyti Fjarðaáls beið hópsins rjúkandi heitt súkkulaði með rjóma ásamt kleinum og pönnsum sem gert var góð skil. 

 

„Frá Alcoa fóru allir sælir og kátir og haft var á orði hve kakóið hafi verið rosalega gott. Fóru síðan allir til síns heima og voru síðustu farþegarnir komnir heim um kl. 18:00. Vert er að taka fram að björgunarsveitirnar á Héraði og í Neskaupstað komu okkur til aðstoðar og tóku farþega í sitt hvorn bílinn. Vil ég fyrir hönd Ferðaklúbbsins 4x4 Austurlandsdeild, þakka Fjarðaáli kærlega fyrir frábærar móttökur og viðmót,“ segir Valdimar að lokum.

4x4
Gestirnir í mötuneyti Fjarðaáls. (Myndin birtist í Austurglugganum)