10. nóvember 2017

Merkur áfangi í árangursríku samstarfi Alcoa og Skógræktarfélags Íslands

Sex ára samstarf Skógræktarfélags Íslands (SÍ) og Samfélagssjóðs Alcoa (Alcoa Foundation, AF) náði stórum áfanga með samningi sem var nýlega undirritaður um 6,4 milljóna króna styrk til gróðursetningar á næstu þremur árum. Með nýja samningnum nær samanlagður fjöldi þeirra trjáplantna sem gróðursettar hafa verið í gegnum samstarf SÍ og AF þessu tímabili og næstu tvö árin ná 97.000 stk.

Á degi jarðarinnar árið 2003 lýsti Alcoa Corp., móðurfélag Alcoa Fjarðaáls, yfir þeirri stefnu að standa að gróðursetningu tíu milljón trjáa víða um heim fyrir árið 2020, en sá fjöldi dugar til að soga til sín um 250.000 tonn af koltvísýringi á ári. Þann sama dag voru fyrstu trén gróðursett í Fjarðabyggð á vegum Skógræktarfélags Reyðarfjarðar (SR) með styrk frá Alcoa. Næstu árin þar á eftir var fjöldi trjáa gróðursettur á vegum SR með aðstoð sjálfboðaliða frá Fjarðaáli.

Samvinna Skógræktarfélags Íslands og Samfélagssjóðs Alcoa

Árið 2011 hóf Samfélagssjóður Alcoa samstarf við skógræktarsamtökin American Forests um alþjóðlegt verkefni sem fólst í að gróðursetja í samvinnu við staðbundin skógræktarfélög fleiri hundruð þúsundir trjáa á svæðum sem höfðu verið ofnotuð eða náttúrulegum trjágróðri eytt. Á Íslandi var stofnað til samstarfs við Skógræktarfélag Íslands og Skógræktarfélag Reyðarfjarðar. Ákveðið var að gróðursetja 12.000 plöntur á því ári, þar af 10.000 á Reyðarfirði.

SÍ fékk aftur styrk árið 2015 fyrir 20.000 plöntum, 10.000 á Reyðarfirði með aðstoð SR og 10.000 að Úlfljótsvatni en sjálfboðaliðar frá European Volunteer Service (EVS), hópur frá sendiráði Bandaríkjanna og starfsmenn SÍ gróðursettu þær. Árið 2016 veiti sjóðurinn aftur styrk fyrir 20.000 plöntum og Skógræktarfélag Eskifjarðar sá um gróðursetningu helmings þeirra og hinn helmingurinn var gróðurettur á Úlfljótsvatni.

Nýi styrkurinn, sem veittur var í ár, mun renna til gróðursetningar 15.000 plantna á ári í þrjú ár, eða samtals 45.000 trjáplantna. Ragnhildur Freysteinsdóttir hjá SÍ segir: „Þar sem bæði Skógræktarfélag Reyðarfjarðar og Skógræktarfélag Eskifjarðar eru tiltölulega fámenn félög munar töluvert um þessa styrki. Hafa mun fleiri plöntur verið gróðursettar í lönd félaganna en ella hefði orðið.“

Hátt á annað hundrað þúsund tré

Líkt og önnur fyrirtæki innan Alcoa heldur Fjarðaál nákvæmt bókhald um þau tré sem gróðursett eru á vegum fyrirtækisins. Auk þeirra plantna sem hafa verið gróðursettar á vegum hinna ýmsu skógræktarfélaga hafa fjölmargir aðrir aðilar lagt hönd á plóg. Til dæmis fengu allir starfsmenn fyrirtækisins á árinu 2007 tré til að gróðursetja á eigin vegum og samtökin Veraldarvinir nýttu styrk frá Alcoa Foundation til að setja niður tæplega 24.000 plöntur á Austurlandi árið 2015 með hjálp sjálfboðaliða. Einnig hafa ýmsir smærri styrkir verið veittir til gróðursetningar en í árslok 2016 var fjöldi plantna kominn í 119.924. Með nýja framlaginu frá AF í samvinnu við SÍ munu a.m.k. 45.000 plöntur bætast við þessa tölu á árunum 2017-2019 og væntanlega verður þá talan komin í alla vega 165.000 árið 2019.             

Skograekt-Eski2017

EVS sjálfboðaliðarnir undirbúa gróðursetningu á Eskifirði 2017. Mynd: Jón Ásgeir Jónsson.


Skograekt-Eski2017

Gróðursetning á sjálfboðaliðadegi á Eskifirði 2016. Mynd: Kristinn Þór Jónasson

 


Skograekt-Eski2017

Gróðursetning á Úlfljótsvatni 2016 með sjálfboðaliðum frá sendiráði Bandaríkjanna og skátum frá skátamóti á Úlfljótsvatni. Mynd: Ragnhildur Freysteinsdóttir