23. nóvember 2017

Tíu ára farsæl samvinna Fjarðaáls og Slökkviliðs Fjarðabyggðar

Þegar bygging álvers Alcoa Fjarðaáls hófst fyrir alvöru á árunum 2006-2007, fóru byggingaraðilinn, Bechtel og Alcoa Fjarðaál að leita leiða til þess að tryggja brunavarnir og aðstoð slökkviliðs í neyðartilvikum. Í fyrstu var skoðað að hafa eigin slökkvistöð á svæðinu en eftir viðræður við sveitarfélagið Fjarðabyggð var ákveðið að fyrirtækin og Fjarðabyggð myndu ráðast í samvinnu um stofnun slökkviliðs. Nú í ár er liðinn áratugur frá því samningur slökkviliðsins og Fjarðaáls var undirritaður og því ekki úr vegi að rifja upp þetta farsæla samstarf.

Ekkert atvinnuslökkvilið á Austurlandi

Árið 2004, þegar fyrsta skóflustungan var tekin að álveri Fjarðaáls, var ekkert atvinnuslökkvilið á Austurlandi. Sveitarfélög á Mið-Austurlandi starfræktu annaðhvort eigið slökkvilið eða voru þátttakendur í byggðasamlögum um slökkvilið. Sjúkraflutningar voru á ábyrgð heilsugæslustöðvanna. Innan Fjarðabyggðar voru slökkvilið í Neskaupstað, á Eskifirði, Reyðarfirði, Stöðvarfirði og Fáskrúðsfirði en eins og áður sagði, ekkert atvinnuslökkvilið.

Alcoa gerir miklar öryggiskröfur og upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir að slökkvilið yrði staðsett á álverslóðinni en eftir athugun og umræður kom í ljós að það myndi hagnast betur öllum íbúum í sveitarfélaginu að koma á stofn atvinnuslökkviliði í þjónustu almennings. Sú hugmynd féll að öllu leyti að hugmyndafræði Alcoa um öryggismál og samfélagslega ábyrgð og talið var að meiri hagkvæmni myndi nást með þessum hætti. Á þessum tíma voru aðeins fjögur atvinnuslökkvilið á landinu, í Reykjavík, á Suðurnesjum, Akureyri og Keflavíkurflugvelli og ljóst var að stórt stökk yrði stigið fram á við með tilkomu atvinnuslökkviliðs í þessum landshluta.

Samningar árið 2007

Í maí 2007 undirrituðu fulltrúar Alcoa Fjarðaáls og Fjarðabyggðar samstarfssamning til tíu ára um rekstur slökkviliðs. Ákvæði er í samningnum um framlengingu til tíu ára. Þá var reiknað með að slökkvilið Fjarðabyggðar yrði 12 manna atvinnulið á Reyðarfirði auk 45 slökkviliðsmanna í hlutastarfi í Neskaupstað, Fáskrúðsfirði og á Stöðvarfirði. Samkvæmt samningnum yrðu 50 starfsmenn Alcoa Fjarðaáls þjálfaðir og tiltækir sem slökkviliðsmenn þegar þörf krefði. Auk slökkvistarfa myndi liðið sinna eldvarnaeftirliti, sjúkraflutningum og neyðarþjónustu, t.d. vegna mengunarslysa. Í samningnum var tilgreint að Alcoa myndi greiða sem svarar launum fyrir þrjú stöðugildi og leggja til uppbyggingar öryggismiðstöðvarinnar það fé sem annars hefði verið lagt til sambærilegra verkefna innan fyrirtækisins.

Rúmlega eitt þúsund fermetra öryggismiðstöð, sem er á tveimur hæðum að hluta, var reist að Hrauni, steinsnar frá lóð Alcoa Fjarðaáls. Á jarðhæð er bílageymsla, aðstaða fyrir búnað og búningsklefar fyrir starfsmenn en á efri hæð aðstaða fyrir vaktmenn og sameiginlegt rými. Þar eru einnig skrifstofur slökkviliðsstjóra, eldvarnaeftirlits og vaktstjóra. Í öryggismiðstöðinni er einnig að finna líkamsræktarstöð, vel útbúna svefnaðstöðu, góða eldhús- og hvíldaraðstöðu, ýmsa afþreyingu og vel búna kennslustofu m.a. til fjarkennslu.

Til viðbótar samningsákvæðum hefur Fjarðaál lagt Slökkviliði Fjarðabyggðar til ýmsan búnað, t.d. í samvinnu við Bechtel árið 2007. Þá afhenti fyrirtækið slökkviliðinu slökkvibíl árið 2011.

Sérþjálfun starfsmanna

Guðmundur Helgi Sigfússon, slökkviliðsstjóri í Fjarðabyggð, segist vera ánægður með samninginn við Alcoa og telur hann styrkja öflugt og vel búið slökkvi- og sjúkralið. Að hans sögn hefur einu sinni virkilega reynt á mátt slökkviliðsins þegar kviknaði í spenni skömmu fyrir jól árið 2010 en mörgum í Fjarðabyggð er sá bruni minnisstæður. Sem betur fer hefur ekki aftur orðið bruni af þessari stærðargráðu. „Það eru alltaf annað slagið einhver minni háttar útköll og síðast í síðustu viku, þegar kviknaði í skimmer í steypuskála,“ segir Guðmundur Helgi. Auðheyrt er á málfari hans að slökkviliðsmenn þekkja vel til staðhátta og tækjabúnaðar í álverinu, enda er það nauðsynlegt ef það kviknar í. „Við komum reglulega í heimsókn í álverið til þess að skoða aðstæður,“ segir hann. „Jafnframt sjáum við m.a. um kennslu fyrir starfsmenn álversins í vinnu í lokuðum rýmum en slíkri vinnu getur fylgt mikil hætta. Þá er töluvert um kennslu í notkun slökkvitækja, bæði fyrir starfsmenn álvers sem og önnur fyrirtæki og stofnanir.“

Slökkviliðið sér um og ber ábyrgð á þjálfun slökkviliðsmanna Fjarðaáls en hún fer fram alla miðvikudaga. Guðmundur Helgi segir: „Eftir nám og þjálfun hjá okkur taka þeir próf hjá Mannvirkjastofnun og öðlast þar með löggildingu sem slökkviliðsmenn. Í dag eru þrettán menn í slökkviliði Fjarðaáls með slíka löggildingu og í janúar næstkomandi er ráðgert að 18 manna hópur ljúki slíku námi.“   

Í fastaliði slökkviliðsins eru 85 manns að meðtöldum sjúkraflutningamönnum. „Ef sérþjálfaðir starfsmenn Alcoa eru taldir með eru þetta vel yfir hundrað manns sem við erum með á okkar snærum og fjórar slökkvistöðvar,“ segir Guðmundur Helgi.

Slökkviliðið er vel útbúið. „Við erum með fimm dælubíla, einn körfubíl og tvo tankbíla, auk varabíla. Við erum að kaupa tvo nýja bíla í tengslum við nýju Norðfjarðargöngin en Vegagerðin hefur lagt okkur lið til þess að kaupa þá.“ Guðmundur Helgi nefnir gott samstarf við verktaka ganganna en slökkviliðið hefur notað nýju göngin á sl. tveimur árum í neyð, til að fara með sjúkrabíla í gegn. „Ekki veitir af stórum og vel útbúnum bílaflota til að takast á við hugsanlegar hættur og slys. Sjúkraútköll eru um 600 á ári og útköll slökkviliðs eru um 40 til 50 á ári.  Flest brunaútköll eru sem betur fer minni háttar.“

„Okkur líkar mjög vel samstarfið við Fjarðaál. Fyrirtækið hefur breytt miklu í brunavörnum, neyðarvörnum og forvörnum fyrir Fjarðabyggð og hér væri líklega ekki slökkvistöð með sólarhringsvakt og svona öfluga sjúkraflutninga ef þetta samstarf hefði ekki komið til. Alcoa átti hugmyndina að því, held ég að megi segja. Þetta er mikils virði fyrir Fjarðabyggð og að mínu mati getur samfélagið hér verið stolt af sínu slökkviliði,“ segir Guðmundur Helgi að lokum.

 

Gudmundur_slokkvilidsstjori
Guðmundur Helgi Sigfússon, slökkviliðsstjóri í Fjarðabyggð, við slökkvibílinn sem
Alcoa Fjarðaál afhenti árið 2011.

Slokkvistodin_Reydarfirdi

Slökkviliðsstöðin í Fjarðabyggð er vel tækjum búin