20. desember 2017

Þriðjungur iðnaðarmanna hjá Fjarðaáli hefur lokið námi við Stóriðjuskólann

Þann 15. desember sl. útskrifuðust 24 nemendur úr framhaldsnámi Stóriðjuskóla Fjarðaáls og er það fjórði hópurinn sem lýkur framhaldsnáminu. Frá því að skólinn tók til starfa haustið 2011 hafa 70 nemendur útskrifast úr grunnnáminu og 53 úr framhaldsnáminu.

Hópurinn sem útskrifaðist að þessu sinni sá fyrsti sem lýkur framhaldsnáminu á þremur önnum í stað fjögurra áður, en ákveðið var að „þjappað saman“ náminu. Aðspurð að ástæðunni fyrir því svarar Guðný Björg Hauksdóttir, framkvæmdastjóri mannauðsmála hjá Fjarðaáli: „Þetta fyrirkomulag gerir okkur kleift að útskrifa örar og þar af leiðandi taka oftar inn nýja nemendur. Eftirspurnin eftir náminu hefur verið svo mikil og við vildum þannig gefa fleiri starfsmönnum tækifæri á skólavist.“                                      

Ekki aðeins iðnaðarmenn og framleiðslustarfmenn

„Núna útskrifaðist iðnaðarmaður númer 21 í fyrirtækinu og hefur þá um þriðjungur iðnaðarmanna Fjarðaáls lokið námi við Stóriðjuskólann,“ segir Guðný Björg. „Í vor útskrifast 30 nemendur úr grunnnáminu. Eftir þá útskrift má sömu sögu segja um framleiðslustarfsmenn: þá hefur um þriðjungur lokið grunnnámi við Stóriðjuskólann. Í vor náum við einnig að útskrifa hundraðasta grunnnemann!“

Guðný Björg tekur fram að allir þessir útskrifuðu starfsmenn vinna ekki allir sem iðnaðar- eða framleiðslustarfsmenn, því í hópi útskrifaðra nemenda úr Stóriðjuskólanum eru nokkrir leiðtogar, fræðslufulltrúi, umhverfistæknar, planarar, framleiðslutæknar og einn framleiðslustarfsmaður sem lokið hefur námi í rafvirkjun.                                       

Þá nefnir Guðný Björg hversu ánægjulegt það er að sjá hversu margir útskrifaðir nemar starfa enn hjá Fjarðaáli. „Það er í samræmi við ört lækkandi starfsmannaveltu, en það liggur fyrir að hún verði einungis tæp 6% fyrir árið 2017.“

Kynjahlutfallið stefnir í rétta átt

Fjarðaál hefur frá upphafi stefnt að jöfnu hlutfalli kynjanna í starfsmannahópnum. Er kynjaskiptingin nokkuð jöfn í Stóriðjuskólanum? „Nei, því miður hefur hlutfall kvenna í Stóriðjuskólanum verið ívið lægra en hlutfall kvenna í fyrirtækinu,“ segir Guðný Björg. „Það hefur fyrst og fremst helgast af lægri starfsaldri kvenna en karla, en gerð er krafa um að umsækjendur hafi starfað í þrjú ár hjá fyrirtækinu þegar þeir sækja um í skólann. Nú eru hins vegar blikur á lofti varðandi það, því fleiri og fleiri konur ná lengri starfsaldri hjá fyrirtækinu. Einnig er ljóst að nýtt vaktakerfi, stöðugleiki í rekstri og áhersla á velferð starfsmanna hafa gert Fjarðaál að eftirsóknarverðum vinnustað til langs tíma.“

Guðný Björg er bjartsýn á framhaldið: „Í janúar á næsta ári hefur nýr hópur nám í grunnnámi og það liggur fyrir að kynjamet verði slegin í þeim hópi, svo mikið er ljóst.“   

Myndir frá útskriftarathöfninni:

X1C1A3813

Útskriftarnemar og gestir þeirra í mötuneyti Fjarðaáls, en Lostæti reiddi fram glæsilegar veitingar í tilefni dagsins.


X1C1A3813

Fjórði hópurinn sem útskrifast úr framhaldsnámi frá stofnun Stóriðjuskólans árið 2011.

 


X1C1A3813

Heiðar Snæbjörnsson og Gunnlaugur Garðarsson kynna verkefni sitt sem fjallaði um þróun vaktakerfis Fjarðaáls og hugmyndir um nýja útfærslu á því. Með þeim í verkefninu var Sigurður Styrkársson.


X1C1A3813

Hulda Garðarsdóttir tekur í hönd Sigríðar Ingunnar Bragadóttur fræðslufulltrúa, en báðar áttu þær afmæli á útskriftardaginn. Á milli þeirra stendur Sigrún Birna Björnsdóttir, fræðslustjóri Fjarðaáls. Hulda var eina konan í þessum útskriftarhóp, en ánægjulegt er að segja að hlutfall kvenna í Stóriðjuskólanum verður í samræmi við hlutfall kvenna í fyrirtækinu á nýju ári.