14. desember 2017

Vel heppnuð rafgreiningarnámskeið á vegum tækniteymis kerskála Fjarðaáls

Tækniteymi kerskála Alcoa Fjarðaáls stóð á dögunum fyrir tveimur námskeiðum í rafgreiningu sem ætluð voru rafgreinum og starfsmönnum stjórnherbergis í kerskála. Vegna vaktavinnufólks voru námskeiðin tvö, þann 26. október og 1. nóvember, svo allar vaktir gætu tekið þátt. Alls mættu 64 starfsmenn á námskeiðin tvö en áhuginn var mjög mikill og færi komust að en vildu.

Aukin tæknileg þekking og betri samskipti

Aðspurður um ástæðuna fyrir námskeiðahaldinu segir Ingólfur T. Helgason, tæknistjóri álframleiðslu: „Það eru margar ástæður. Þær helstu eru til dæmis að auka tæknilega þekkingu á vöktum. Tækniteymi kerskálans er ekki alltaf á svæðinu, og reyndar bara um 33% tímans, og því mikilvægt að dýpka tæknilegan skilning hjá vöktunum. Þá geta starfsmenn brugðist við vandamálum betur og hraðar.“

Önnur ástæða var að auka tengingu á milli tækniteymis kerskála og rafgreina á vöktum, en hún er mikilvæg til að brugðist sé rétt við. Betri tenging stuðlar að gagnkvæmum samskiptum, þannig að ábendingar frá framleiðslufólki í kerskála berist til tækniteymis og tækniteymið geti komið leiðbeiningum um breytingar eða viðbrögð á framfæri inn á vaktirnar.

Ingólfur segir: „Það gáfust líka mörg tækifæri fyrir samskipti á námskeiðunum. Alltaf var gefinn góður tími fyrir umræður eftir hvert erindi auk þess sem rúmur tími var í enda dagsins fyrir opnar umræður. Það var gott að skapa vettvang til að flestir starfsmann sem sinna rafgreinastörfum, á öllum vöktum geti hist og rætt saman aðferðir og verklag. Þessi hópur starfsmanna hefur ekki haft tækifæri á að hittast saman, eingöngu til að ræða tæknimál sín á milli.“

Námskeiðin skiluðu tilætluðum árangri

Tækniteymið, rafgreinar og leiðtogar hafa lengi haft áhuga á einhvers konar fyrirlestrum til þess að auka tækniþekkingu en ekki hefur orðið af því hingað til. Að sögn Ingólfs varð hugmyndin að raunveruleika eftir opnu ráðstefnuna „Mannauðsstjórnun okkar á milli“ sem Fjarðaál hélt á Egilsstöðum í september. „Þá sá ég tækifæri til þess að nota hugmyndina um stutt og áhugaverð erindi um afmörkuð málefni, auk umræðna, til að geta komið sem mestu til skila.“ 

Ingólfur er mjög ánægður með útkomuna. „Þeir starfmenn tækniteymisins sem töku þátt í deginum voru búnir að leggja mikla vinnu í erindin sín og skiluðu þeim vel og fagmannlega frá sér. Starfsmenn sem sátu námskeiðin hafa margir hverjir lýst yfir ánægju með þau og segja að þetta hafi skilað tilætluðum árangri. Gaman er að segja frá því að út úr deginum komu 63 aðgerðir sem margar hverjar eru umbótahugmyndir sem skráðar eru í kerfið.“

Miðað við þennan góða árangur langar Ingólf að endurtaka leikinn. „Ég sé fyrir mér að hafa þetta allavega einu sinni á ári og reyna þá að hafa það fjölbreytt í hvert skipti,“ segir hann. Hann telur jafnframt að önnur ferli innan Fjarðaáls og jafnvel önnur álver geti nýtt sér uppskriftina að svona námskeiði. „Það er ómetanlegt er að fá upplýsingar um vandamál beint frá fólkinu sem vinnur verkin og eiga gott samband við allar vaktir. Einnig er mjög mikilvægt að auka tæknilegan skilning alls staðar í verksmiðjunni og ég lít á það sem eitt af hlutverkum tækniteyma að sinna því vel,“ segir Ingólfur að lokum.

Rafgreinanamskeid_9
Áhugasamir þátttakendur á öðru námskeiðinu af tveimur.