17. janúar 2019
Vinir Vatnajökuls úthluta milljónum til styrktar verkefnum sem varða Vatnajökulsþjóðgarð
Vinir Vatnajökuls úthlutuðu við hátíðlega athöfn á veitingahúsinu Nauthóli þann 15. janúar sl. um sextán milljónum króna til styrktar 15 verkefnum sem falla undir rannsóknir, kynningu og fræðslu um Vatnajökulsþjóðgarð og nágrenni hans. Að auki styrkja Vinirnir verkefni Vatnajökulsþjóðgarðs í Jökulsárlón og Skaftafell um tugi milljóna. Alcoa Fjarðaál er einn stærsti styrktaraðili samtakanna.
Formaður stjórnar Vina Vatnajökuls Theodór Blöndal bauð gesti velkomna á styrkjaúthlutunina. Snorri Þór Tryggvason kynnti verkefnið „360 gráðu loftmyndir af helstu náttúruperlum Vatnajökulsþjóðgarðs” sem hann fékk styrk frá Vinum Vatnajökuls til að vinna. Þá kynnti Sævar Helgi Bragason verkefnið „Næturhiminn Vatnajökulsþjóðgarðs - Heimildarmynd um sérstöðu og fjölbreytileika Vatnajökulsþjóðgarðs” sem styrkt er af Vinum Vatnajökuls. Loks var styrkjum Vina Vatnajökuls formlega úthlutað.
Vinir Vatnajökuls eru frjáls félagasamtök sem voru stofnuð í júní árið 2009 og eru því ári yngri en þjóðgarðurinn. Þau hafa nú á níu árum veitt styrki að upphæð hátt í 500 milljónir króna til rannsókna, fræðsluverkefna og kynninga á Vatnajökulsþjóðgarð og nágrenni hans.
Það er mjög ánægjulegt fyrir Vini Vatnajökuls að geta styrkt þessi fjölbreyttu verkefni sem umsækjendur hafa lagt mikla vinnu og metnað í. Verkefnin eiga það sameiginlegt að stuðla að því að sem flestir geti notið þeirrar náttúru og sögu sem Vatnajökulsþjóðgarður hefur að geyma.
Til að Vinirnir geti sinnt sínu hlutverki þurfi þeir á liðsinni að halda. Alcoa Fjarðaál hefur frá upphafi verið stærsti bakhjarl Vina Vatnajökuls og veitir fyrirtækið þeim rausnarlega styrki árlega.
Frá afhendingunni. Magnús Þór Ásmundsson, forstjóri Alcoa Fjarðaáls er lengst
t.v. í aftari röð.