18. júní 2019

Litla barnið þeirra er orðið fullorðið - heimsókn frá Pittsburgh

Alcoa Fjarðaál tekur oft á móti hópum fólks sem heimsækir álverið, t.d. leikskólabörnum, háskólanemum, sveitarstjórnarfólki og ýmsum samtökum. Í síðustu viku kom hópur sem skar sig töluvert úr en það voru starfsmenn höfuðstöðva Alcoa í Pittsburgh í Bandaríkjunum sem komnir eru á eftirlaun. Einstaklega var tekið vel á móti þeim því meðal þeirra var fólkið sem aðstoðaði við undirbúning og fæðingu Fjarðaáls, ásamt því að taka bernskusporin með fyrirtækinu.

Hugmyndin að heimsókninni kviknaði hjá Jack Klingler, forsvarsmanni hópsins. Þeir starfsmenn Alcoa í Pittsburgh sem komnir eru á eftirlaun hittast reglulega og hafa stofnað sitt eigið félag. Félagsmenn tóku vel í hugmyndina og ferðin var skipulögð í samvinnu við Andrés Svanbjörnsson sem var verkefnastjóri hjá iðnaðarráðuneytinu þegar samið var við Alcoa um álverið en nú er hann kominn á eftirlaun og vinnur sem leiðsögumaður.

Smám saman stækkaði hópurinn þar sem félagar tóku með sér maka og ættingja og á endanum voru það 45 manns sem komu til Íslands þann 7. júní til að aka hringinn í kringum Ísland á einni viku og skoða áhugaverða staði. Á fjórða degi ferðalagsins komu þau í Fjarðaál og þeim var vel tekið.

Þessi Íslandsferð var 35 ferð Jack Klinglers til Íslands en hann er orðinn mikill Íslandsvinur. Hann hafði aldrei komið til landsins þegar hann var skipaður í nefnd til þess að undirbúa Fjarðaálsverkefnið snemma árs 2002 og honum er einkar minnisstætt þegar samningar voru undirritaðir í mars 2003 og einnig opnunarhátíðin 2007. Hann sagði eftir heimsókn hópsins: „Við sem unnum hjá Alcoa erum svo stolt af því að sjá hvernig Fjarðaál hefur dafnað og sérstaklega hversu vel það er rekið með tilliti til fólksins og samfélagsins. Áhrifin sem fyrirtækið hefur haft á nærsamfélagið eru augljós. Sumir í hópnum hafa aldrei komið í álver en þau voru öll mjög hrifin af því hvað það er snyrtilegt hjá Fjarðaáli og hve mikil áhersla er lögð á öryggi og þátttöku starfsmanna.“

Visitors_Retired Alcoans from Pittsburgh_litil

Hópurinn fyrir utan álverið ásamt starfmönnum Fjarðaáls en meðal þeirra eru Aðalheiður Vilbergsdóttir, Ásgrímur Sigurðsson, Smári Kristinsson, Magnús Þór Ásmundsson, Guðný Björg Hauksdóttir og Dagmar Ýr Stefánsdóttir. Andrés Svanbjörnsson, leiðsögumaður, er efst t.h.