18. júlí 2019
Alcoa Corporation tilkynnir afkomu 2. ársfjórðungs 2019: Aðgerðir á álframleiðslusviði styrkja fyrirtækið enn frekar
Alcoa Corporation, móðurfyrirtæki Fjarðaáls, tilkynnti í gær niðurstöður 2. ársfjórðungs 2019 sem fela meðal annars í sér ýmsar aðgerðir til þess að efla álframleiðslusvið fyrirtækisins.
Frá og með 1. janúar sl. breytti fyrirtækið um reikningsskilaaðferð úr því að meta vissar birgðir sem síðast inn - fyrst út (LIFO) yfir í meðalkostnað. Breytingunum á reikningsskilareglunni hefur verið beitt afturvirkt á öll fyrri tímabil sem borið er saman við. Alcoa hefur kynnt þá breytingu til verðbréfa- og kaupþingsnefndar Bandaríkjanna.
„Á öðrum ársfjórðungi hefur álframleiðslusvið náð að rétta úr kútnum þrátt fyrir lágt álverð á heimsmarkaði og sjóðsstaðan er góð, jafnvel þótt við höfðum þurft að leggja út talsverða upphæð í reiðufé,“ segir forstjóri Alcoa Corporation, Roy Harvey. „Rekstur hefur líka verið stöðugur á öllum sviðum fyrirtækisins.“
Roy Harvey segir jafnframt: „Við losuðum okkur við minnihlutaaðild í sameiginlegum rekstri flatvölsunarverksmiðju í Sádí-Arabíu og við náðum góðum árangri í öðrum verkefnum til að draga úr tapi og auka hagnað fyrirtækisins. Þar sem við siglum núna inn í seinni hluta ársins höldum við áfram að leggja megináherslu á öryggi og hagkvæman rekstur, og leitum nýrra leiða til að bæta hag fyrirtækisins enn frekar.“
Í lok annars ársfjórðungs 2019 tilkynnir Alcoa tap upp á 402 milljónir Bandaríkjadala (um 50,7 milljarða króna) eða 2,27 Bandaríkjadali á hlut, en á fyrsta ársfjórðungi 2019 nam tap fyrirtækisins 199 milljónum Bandaríkjadala (um 25 milljörðum króna), eða 1,07 Bandaríkjadölum á hlut.
Niðurstöður annars ársfjórðungs endurspegla m.a. áhrifin af sérstökum liðum upp á 400 milljónir Bandaríkjadala, sem eru til að mynda 319 milljónir dala í fjárlosun vegna hluta Alcoa í völsunarverksmiðjunni í Ma‘aden í Sádí-Arabíu (MRC) og 81 milljón Bandaríkjadala í öðrum sérstökum liðum.
Leiðréttur rekstrarhagnaður fyrir vexti, skatta, fyrningar og afskriftir var 455 milljónir Bandaríkjadala (57,4 milljarðar króna) á öðrum ársfjórðungi, sem er örlítið minni en á fyrsta ársfjórðungi, aðallega vegna lægra verðs á bæði súráli og áli, en á móti því komu meiri tekjur vegna raforkusölu og lægra verð á hráefnum.
Tekjur Alcoa á öðrum ársfjórðungi námu 2,7 milljörðum Bandaríkjadala (um 340 milljörðum króna).
Í lok annars ársfjórðungs var Alcoa með 834 milljónir Bandaríkjadala (105 milljarða króna) í handbæru fé en skuldaði 1,8 milljarða dala (227 milljarða króna).
Handbært fé frá rekstri var 82 milljónir Bandaríkjadala (um 10 milljarðar króna) en þar munaði mestu um 306 milljóna greiðslu á uppsöfnuðum tekjuskatti frá fyrra ári. Handbært fé fyrir fjármögnunarhreyfingar voru 71 milljón Bandaríkjadala og fé notað í fjárfestingarhreyfingar var 199 milljónir dala, en þar með talið er framlag fyrirtækisins upp á 100 milljónir Bandaríkjadala til fjárlosunar vegna MRC-verkefnisins. Frjálst fjárstreymi var neikvætt um 7 milljónir Bandaríkjadala (um 883 milljónir króna).
Fyrirtækið var í lok 2. ársfjórðungs með 31 daga veltufé, sem er 4 dögum meira en á sama tíma í fyrra.
Til þess að efla fyrirtækið greip Alcoa til þessara aðgerða:
- Alcoa lét frá sér 25,1% minnihlutaeign í MRC og losaði fyrirtækið með því frá öllum skuldbindingum vegna MRC, þ.m.t. ábyrgðir vegna skulda MRC og þátttöku í framtíðargreiðslum MRC. Alcoa verður áfram í Ma‘aden sameignarfélaginu hvað varðar báxítnámuvinnslu, súráls- og álframleiðslu.
- Alcoa náði samningum við stéttarfélög í Québec í Kanada - fyrst vegna Baie Comeau álversins og síðan vegna Aluminerie de Bécancour (ABI) álversins og batt þannig enda á 18 mánaða launadeilur. Endurræsing ABI álversins mun hefjast þann 26. júlí nk. og er áætlað að henni ljúki á öðrum ársfjórðungi 2020. Fyrirtækið reiknar með að sérstakir liðir tengdir útgjöldum varðandi endurræsingu verði 30 til 35 milljónir Bandaríkjadala, eða sem nemur um 3,7 til 4,4 milljörðum króna.
- Þá hefur Alcoa innleitt áætlun um uppfærslu Deschambault álversins í Québec en samkvæmt henni mun framleiðslugeta þess aukast um 10% fyrir árslok 2021. Alcoa mun fá óendurkræft framlag upp á allt að 10 milljónir Kanadadala (967 milljónir króna) frá Framkvæmda- og nýsköpunarsjóði Kanada til þess að vega á móti kostnaðinum varðandi verkefnið en áætlað er að hann verði um 85 milljónir Kanadadollarar (8,2 milljarðar króna).
- Þann 5. júlí náði Alcoa skilyrtum samningi um að selja Avilés og La Coruña álverin á Spáni. Ef ekki tekst að ljúka yfirtöku PARTER Capital Group AG fyrir 31. júlí nk. mun öllum starfsmönnum verða sagt upp og samfélagsleg áætlun sett í gang þann 1. ágúst nk. Alcoa reiknar með að endurskipulagningarkostnaður á þriðja ársfjórðungi 2019 muni verða um 100-140 milljónir Bandaríkjadala (fyrir og eftir skatta), en upphæðin fer eftir því hvort af yfirtöku verður eða hópuppsögn eigi sér stað. Tengd útgjöld gætu numið allt að 100-130 milljónum Bandaríkjadala (12,6-16,4 milljarðar króna), en helming þeirrar upphæðar þyrfti að greiða á árinu 2019.