04. júlí 2019

Alcoa Foundation veitir styrk upp á tæpar 4 milljónir króna til hreinsunar strandlengju Fjarðabyggðar

Fimmtudaginn 27. júní unnu starfsmenn Alcoa Fjarðaáls ásamt fleirum að „Action“ sjálfboðaliðaverkefni í samvinnu við Björgunarsveitina Ársól og sveitarfélagið Fjarðabyggð en verkefnið fólst í fjöruhreinsun. Að því loknu veitti Dagmar Ýr Stefánsdóttir, yfirmaður samskipta og samfélagsmála hjá Alcoa Fjarðaáli formlega styrk til sveitarfélagsins sem varið verður til verkefnisins „Hreinsun strandlengju Fjarðabyggðar.“

Strandhreinsun og grillveisla

Sjálfboðaliðarnir hreinsuðu fjöruna frá álverslóðinni út með Hólmum og út í Hólmanes en Anna Berg Samúelsdóttir, umhverfisstjóri Fjarðabyggðar var þeim innan handar með góð ráð. Vaskir liðsmenn Björgunarsveitarinnar Ársól sáu um að fjarlægja ruslið sem safnaðist, en það var umtalsvert. Unnið var í fjórar klukkustundir og samtals tóku 22 sjálfboðaliðar þátt í hreinsuninni.

Eftir að árangsríkri strandhreinsun var lokið var slegið upp kvöldvöku á Borgarsandi á Hólmanesi ásamt gestum Gönguviku Fjarðabyggðar. Öllum var boðið upp á grillaðar veitingar í boði starfsmannafélags Fjarðaáls, Sóma, auk þess sem kveikt var í bálkesti og sungið og trallað. Glatt var á hjalla eins og myndirnar sýna.

Metnaðarfullt og spennandi verkefni

Í grillveislunni veitti Dagmar Ýr styrkinn frá Samfélagssjóði Alcoa (Alcoa Foundation) sem er að upphæð 30.000 Bandaríkjadalir sem samsvara um 3,7 milljónum króna. Bæjarstjóri Fjarðabyggðar, Karl Óttar Pétursson, tók á móti styrknum fyrir hönd sveitarfélagsins.

Styrknum verður varið í strandhreinsunarverkefni sem Fjarðabyggð stendur fyrir í sumar í samvinnu við nokkur félagasamtök í sveitarfélaginu. Ætlunin er að hreinsa strandirnar í öllum fjörðum Fjarðabyggðar en hér er um mjög mikilvægt, metnaðarfullt og spennandi verkefni að ræða.

Félagasamtökin munu vinna að útfærslu og framkvæmd á hreinsun strandlengjunnar í samvinnu við sveitarfélagið sem kom að verkefninu með því að sækja um styrkinn til Samfélagssjóðs Alcoa. Styrkurinn kemur að góðun notum fyrir kostnað vegna hreinsunar, t.d.  ferða- og flutningskostnað, verkfæri, mat og fleira.

Fjoruhreinsun _thorunn

Bæjarstjóri Fjarðabyggðar, Karl Óttar Pétursson tók við styrknum frá Dagmar Ýr Stefánsdóttur yfirmanni samskipta og samfélagsmála hjá Alcoa Fjarðaáli á Borgarsandi á Hólmanesi. Í baksýn má sjá gesti Gönguviku Fjarðabyggðar auk starfsmanna Fjarðaáls og annarra sjálfboðaliða.

Fjoruhreinsun _thorunn
Fjoruhreinsun _thorunn
Fjoruhreinsun _thorunn
Fjoruhreinsun _thorunn


Fjoruhreinsun _thorunn
Fjoruhreinsun _thorunn