02. júlí 2019

Konur geta öðlast jafnrétti í „karllægu“ umhverfi með því að vera þær sjálfar

Það ríkti samhugur og gleði hjá konunum í matsal álvers Alcoa Fjarðaáls þann 19. júní en þangað voru þær komnar til þess að fagna afmæli kosningaréttar kvenna. Boðið var upp á góðar veitingar, áhugaverð erindi og ýmis skemmtiatriði.

Fjarðaál hefur boðið konum heim þennan dag frá því álverið hóf starfsemi sína og nú er kvennakaffið orðið fastur liður í starfsemi fyrirtækisins. Tilgangurinn með heimboðinu er m.a. að fagna áföngum í réttindasögu kvenna og einnig að vekja athygli á því sem enn er eftir í baráttunni. Þá vill fyrirtækið sýna fram á að öll störf í álverinu henta bæði körlum og konum og koma á framfæri að það hafi verið markmið fyrirtækisins frá fyrsta degi að helmingur starfsmanna séu konur.

Áhugaverð ávörp um jafnréttismál

Rosa García Pinero, yfirmaður sjálfbærnimála hjá Alcoa á heimsvísu, flutti opnunarávarp en á dagskrá voru tvö áhugaverð erindi. Andrea Hjálmsdóttir, lektor við Háskólann á Akureyri flutti erindið „„Langhlaup án marklínu." Hversu hratt getum við hlaupið í jafnréttisátt?“  og Birna Guðmundsdóttir, framleiðslustarfsmaður í steypuskála, ávarpaði samkomuna fyrir hönd Fjarðaálskvenna.

Birna hefur starfað hjá Fjarðaáli í þrjú ár. „Fyrirfram fannst mér þetta vera svona karla-vinnustaður og var hrædd um að ég passaði ekki inn í þennan heim,“ sagði hún. „Ég setti lengi upp einhverja grímu í kringum karlana, eins og ég þyrfti að mæta einhverri staðalímynd á vinnustað þar sem karlar eru í miklum meirihluta. Ég sagði grófa brandara og hagaði mér svolítið eins og einn af körlunum.“ Birna uppskar samkennd og hlátur úr salnum með þessari  yfirlýsingu og sagði svo: „Eftir #metoo herferðina hér í Fjarðaáli fór ég smátt og smátt að gera mér grein fyrir þessari hegðun sem ég hafði vanið mig á. Ég var ekki ég sjálf, heldur gekk inn í hlutverk til þess að „lifa af” innan um alla karlmennina. Með tímanum fór ég að þora að vera ég sjálf, konan, og varð einlægari og vingjarnlegri eins og mér er eðlislægt. Fyrir vikið náði ég að kynnast samstarfsfélögum mínum betur en bara á yfirborðinu og mér fór að líða betur í vinnunni, óhrædd við að vera dæmd.“

Söngur og annað til skemmtunar og fræðslu

Skemmtiatriði frá hinum sígildu gleðigjöfum, Fjarðadætrum, var einnig á dagskrá og unglistahópurinn „Orðið er LAUST“ fjallaði um jafnréttismál með gamansömu ívafi en þó alvarlegum undirtóni. Hópurinn flutti verk um íslensku kvenréttindabaráttuna og velti í lokin upp þeirri spurningu hvort hún sé að fella seglin miðað við þá lagatexta sem eru vinsælir hjá unglingum í dag. Verkið þeirra var góð áminning um að við getum ekki lagt árar í bát hvað baráttuna varðar - fullu jafnrétti hefur ekki enn verið náð. Veislustjórar voru Vandræðaskáldin sem einnig skemmtu áheyrendum við góðar undirtektir.

María Ósk Kristmundsdóttir, framkvæmdastjóri fjárfestinga, framleiðsluþróunar og upplýsingatækni, segir um atburðinn 2019: „Besta kvennakaffið hingað til og öll dagskráratriðin voru bæði hugvekjandi og stórskemmtileg. Ég var stolt af okkar fulltrúa, Birnu Guðmundsdóttur, en erindið hennar gaf mér mikinn innblástur. Hún er frábær fulltrúi okkar Fjarðaálskvenna. Einnig vakti innlegg leikhópsins „Orðið er LAUST“ mig til umhugsunar um þróun í jafnréttismálum og hvatti mig til að halda áfram í baráttunni.“

Alcoa Fjarðaál þakkar öllum þeim sem mættu, bæði starfsfólki og gestum.

 

2019-06-19 Séð yfir salinn

Það var fjölmennt og góðmennt í Kvennakaffinu 2019. Karlmenn voru að sjálfsögðu velkomnir!


2019-06-19 Séð yfir salinn

Birna Guðmundsdóttir, framleiðslustarfsmaður í steypuskála, ávarpaði samkomuna fyrir hönd Fjarðaálskvenna.


2019-06-19 Séð yfir salinn

Unglistahópurinn „Orðið er laust" naut hylli hjá áheyrendum. Fremst á myndinni er María Jóngerð Gunnlaugsdóttir.


2019-06-19 Séð yfir salinn

Andrea Hjálmsdóttir, lektor við Háskólann á Akureyri flutti erindið „„Langhlaup án marklínu."


2019-06-19 Séð yfir salinn

Fjarðadætur standa ávallt undir væntingum.