20. febrúar 2020
Þekkir þú ævintýraþyrstan 16-18 ára nemanda á Mið-Austurlandi?
Á undanförnum árum hefur 16-18 ára unglingum, sem hafa áhuga á náttúru og vísindum, gefist kostur til þátttöku í leiðangri um þjóðgarð í Bandaríkjunum á vegum NatureBridge-samtakanna í tvær vikur ásamt öðrum unglingum á sama aldri. Samfélagssjóður Alcoa (Alcoa Foundation) greiðir allan ferða- og dvalarkostnað, frá Austurlandi og heim aftur.
NatureBridge sem eru samtök sem bjóða upp á staðbundið nám fyrir börn og unglinga í þjóðgörðum í Bandaríkjunum. Árið 2014 styrkti samfélagssjóðurinn alls 24 nemendur á aldrinum 16-18 ára frá tólf samfélögum þar sem Alcoa er með starfsstöð til þess að ferðast til Yosemite þjóðgarðsins í Kaliforníu og verja þar 10 dögum í gönguferðir, fræðslu og skemmtun. Rebekka Karlsdóttir, sem var þá nemandi á fyrsta ári í Menntaskólanum á Egilsstöðum var valin til þátttöku.
Síðan þá hafa fimmtán aðrir nemendur verið valdir: Atli Berg Kárason og Ásgerður Hlín Þrastardóttir (2015), Ólafur Tryggvi Þorsteinsson, Eggert Már Eggertsson og Mikael Arnarsson (2016), Björgvin Ægir Elísson, Daði Þór Jóhannsson, Eysteinn Einarsson, Kristvin Þór Gautasson og Jóna María Aradóttir (2017), Jófríður Úlfarsdóttir, Lára Guðnadóttir, Embla Rán Baldursdóttir, Sigurlaug Eir Þórsdóttir og Helga Björt Jóhannsdóttir (2018) og í fyrra voru það þrír framhaldsskólanemendur sem duttu í lukkupottinn. Tveir þeirra fóru þann 14. júlí í Olympic-þjóðgarðinn, þeir Hlynur Karlsson frá Neskaupstað og Helgi Jónsson frá Egilsstöðum, en sá þriðji, Almar Aðalsteinsson frá Egilsstöðum, fór í Yosemite-þjóðgarðinn þann 4. ágúst.
Auglýst eftir umsóknum 2020
Í ár verða 59 nemendur frá samfélögum þar sem Alcoa starfar víðs vegar um heim valdir til þess að taka þátt í leiðangri sem tekur tvær vikur. Hér er um ótrúlega gott tækifæri að ræða fyrir ungmenni sem hafa áhuga á umhverfi og náttúru, útivist og ferðalögum. Þetta verður ógleymanlegt ævintýri í hópi jafnaldra undir leiðsögn vísindamanna og reyndra leiðsögumanna.
Nemendur geta valið um tvo staði (en geta líka sleppt því að tiltaka stað og látið lukkuna ráða). Annars vegar er Olympic-þjóðgarðurinn í Washingtonfylki. Um tvær dagsetningar er að ræða, 5.–17. júlí og 19. júlí–1. ágúst. Gist verður skálum í grunnbúðum en þaðan verður farið í bakpokaferðalag um dali og fjöll. Hins vegar er Yosemite-þjóðgarðurinn í Kaliforníu. Ferðalagið stendur frá 2.-15. ágúst þannig að umsækjandi verður að geta ferðast á þeim tíma. Gist verður skálum í Crane Flat búðunum en síðan haldið í leiðangur.
Umsóknarfrestur rennur út þann 3. mars nk. Í apríl verður svo tilkynnt hverjir voru valdir.
Sjá nánar á www.naturebridge.org/alcoascholars þar sem er m.a. að finna slóð á umsóknareyðublað. Ef ykkur vantar meiri upplýsingar, vinsamlegast skrifið tölvupóst til annah.palsdottir (hjá) alcoa.com.
Almar Aðalsteinsson, nemandi í Menntaskólanum á Egilsstöðum, fór í ógleymanlega ferð til Yosemite-þjóðgarðsins í fyrra. Hann er í rauðum bol á miðri myndinni.
Ungmenni á ferð í Yosemite-þjóðgarðinum.