04. mars 2021

Um 94% starfsmanna Alcoa Fjarðaáls samþykktu kjarasamning

Vinnuskylda lækkar samkvæmt nýjum samningi

Atkvæðagreiðslu um kjarasamning AFLs og RSÍ við Alcoa Fjarðaál lauk þann 1. mars 2021 og var hann samþykktur með miklum yfirburðum eða 93,6% greiddra atkvæða. Á kjörskrá voru 457 starfsmenn og var kjörsókn 72,4%. Samningurinn gildir til þriggja ára, afturvirkt frá 1. mars 2020.

Helstu breytingar í nýjum samningi eru launahækkanir og vinnutímastytting, hvort tveggja í líkingu við það sem samið hefur verið um nýlega hjá hinum íslensku álverunum tveimur og í samræmi við Lífskjarasamninginn.

Tor Arne Berg forstjóri Alcoa Fjarðaáls kveðst ánægður með samninginn og þann mikla stuðning sem hann fékk meðal starfsmanna í atkvæðagreiðslunni. Hann telur að samningurinn feli í sér mikla kjarabót fyrir starfsfólk Fjarðaáls.

Fja_undirritunv2

Frá undirritun nýs kjarasamnings milli AFLs starfsgreinafélags, Rafiðnaðarsambands Íslands og Alcoa Fjarðaáls sem fram fór í matsal Fjarðaáls.

Samninginn undirrituðu þau Kristján Þórður Snæbjarnarson formaður RSÍ, Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir formaður AFLs, Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari, Guðný Björg Hauksdóttir framkvæmdastjóri mannauðsmála hjá Alcoa Fjarðaáli og Smári Kristinsson framkvæmdastjóri rekstrarþróunar hjá Alcoa Fjarðaáli.