06. maí 2021

Alcoa Fjarðaál hlaut viðurkenningu á aðalfundi Hinsegin Austurlands

Á aðalfundi Hinsegin Austurlands sem fram fór sunnudaginn 12. apríl hlaut Alcoa Fjarðaál viðurkenningu vegna framlags og stuðnings fyrirtækisins við hinsegin fólk á Austurlandi. Samtökunum þykir Fjarðaál standa vel að málefnum hinsegin fólks innan fyrirtækisins. Í rökstuðningi segir að þar séu viðhorf og viðtökur gagnvart hinsegin fólki með miklum sóma.

Dagmar Ýr Stefánsdóttir yfirmaður samskipta og samfélagsmála tók við viðurkenningunni fyrir hönd fyrirtækisins og þakkaði samtökunum kærlega fyrir þennan heiður. „Það er mikilvægt að hrósa fyrir það sem vel er gert og þessi viðurkenning eflir okkur til dáða í að gera enn betur,“ segir hún. „Álverið er fjölbreyttur vinnustaður þar sem öllum er vel tekið. Ég vonast líka til þess að viðurkenningin veki athygli og verði til þess að önnur fyrirtæki veiti málefninu eftirtekt.“

Móðurfyrirtæki Fjarðaáls, Alcoa Corp. hefur um áraraðir lagt mikla áherslu á jafnrétti fólks af ýmsum toga og árið 2021 er sérstaklega tileinkað fjölbreytileika og meðtalningu – þ.e. að allir séu taldir með og enginn útilokaður, til dæmis í samræðum eða skipulagningu félagslegra atburða. Innan fyrirtækisins er starfsandi félagsskapur, EAGLE, sem stuðlar að réttindum LBGT+ fólks, en allir starfsmenn eru velkomnir í félagið, hvort sem þeir telja sig falla undir LBGT+ eða kjósa að sýna því málefni stuðning.

Hinsegin Austurland er sjálfstætt starfandi félag sem stofnað var 28. desember 2019.

Tilgangur félagsins er að vera stuðnings- og fræðslusamtök fyrir hinsegin fólk á Austurlandi, þar á meðal samkynhneigðra, tvíkynhneigðra, transfólks, intersex og önnur sem skilgreina sig hinsegin, auk aðstandenda þeirra og velunnara. Hinsegin Austurland vill geta boðið upp á fræðslu, ráðgjöf og viðburði sem lúta að hinsegin málefnum og styðja við menningu hinsegin fólks á Austurlandi.  Jódís Skúladóttir, formaður Hinsegins Austurlands, segir að viðurkenning af þessu tagi verði veitt hér eftir á hverju ári.

Hinsegin_Austurland