16. september 2021
Sigurgeir synti í níu klukkustundir til að styrkja samtökin Einstök börn
Sigurgeir Svanbergsson er 31 árs framleiðslustarfsmaður í skautsmiðju Fjarðaáls og hefur starfað hjá fyrirtækinu síðan í mars 2015. Hann er búsettur á Eskifirði og á sex ára gamla dóttur. Í síðustu viku tók hann sig til og vann afrek í þágu félagasamtakanna Einstök börn. Viðtöl við Sigurgeir hafa birst í helstu fréttamiðlum en okkur langaði til að heyra í honum hljóðið eftir að þessu góðgerðarverkefni var lokið.
Varð að finna eitthvað ögrandi og krefjandi
Helsta áhugamál Sigurgeirs eru bardagalistir sem hann hefur lagt stund á um árabil. Áhugamálin eru eiginlega misjöfn,“ segir hann, „en þau snúast yfirleitt um að ögra sjálfum mér á einhvern öfgakenndan hátt. Svo er söngur og hljóðfæraleikur líka stór partur af mér.“ En hvernig datt honum í hug að ráðast í það verkefni að synda tólf kílómetra í góðgerðarskyni? „Ástæðan fyrir þessu byrjaði þannig að ég gat ekki keppt á heimsmeistaramóti í bardagalistum svo ég þurfti að finna mér eitthvað annað ögrandi og krefjandi. Út frá því varð þessi hugmynd. Ég er ekki sundmaður og áskorunin var því skýr!“
Til að byrja með æfði Sigurgeir sig í sundlaug. „Ég reyndi að fara aldrei minna en fjóra kílómetra. Svo færði ég það yfir í sjóinn og setti mér allskonar markmið eins og til dæmis að synda Eskifjörðinn meðfram ströndinni og fleiri svoleiðis markmið.
Gekk ekki áfallalaust fyrir sig
Sundið hófst 31. ágúst á sandströndinni á Kjalarnesi og því lauk í bryggjuhverfinu í Reykjavík rétt eftir miðnætti þann 1. september. Sigurgeir hafði gert tilraun tveimur dögum áður en þá var of mikill öldugangur svo hann varð að snúa við. Þegar sundið var hafið, fór allt samkvæmt áætlun? „Alls ekki! Fylgdarbáturinn minn bilaði svo ég eyddi rúmlega klukkutíma í það að synda fram og til baka og í kringum bátinn á meðan við biðum eftir liðsauka og nýjum fylgdarbát. Ég las líka eitthvað vitlaust í strauma og lenti tvisvar sinnum í því að vera fastur á sama stað í 40 mínútur að synda með öllu sem ég hafði. Seinustu þrjá tímana hélt ég heldur engu niðri og kastaði mikið upp.“
„Sundið tók rétt tæpa níu klukkutíma. Öryggið var tryggt með mjög góðu fólki sem fylgist vel með mér og aðstæðum,“ segir Sigurgeir. Hvað skyldi hann hafa hugsað um á meðan hann synti? „Það var mjög margt sem ég hugsaði en ég held að undir lokin hafi ég verið farin að einbeita mér að litlum markmiðum og hugsa um öndun. Sem dæmi um markmiðin hugsaði ég að það væri ekki svo langt í „þennan tanga þarna.“ Það er markmiðið einmitt núna, þessi tangi!”
Áheitasöfnun tókst vel
Eins og áður sagði safnaði Sigurgeir áheitum á félagasamtökin Einstök börn. Hvers vegna valdi hann þau? „Einstök börn er frábært félag sem hagnast eingöngu af svona styrktarverkefnum,“ segir Sigurgeir. „Ríkið gerir lítið sem ekkert fyrir þetta fólk og mér fannst kjörið að láta gott að mér leiða á erfiðum tímum.“ Þess má geta að enn er hægt að leggja samtökunum lið þar sem söfnun Sigurgeirs stendur enn yfir. Smellið hér til að leggja átaki Sigurgeirs lið.
Vill fá að njóta sársaukans
Hvernig líður Sigurgeiri eftir níu tíma sund í sjónum sem er á þessum árstíma um 12°C, eru einhverjir verkir eða annað að hrjá hann? „Ég er mjög verkjaður í liðum sérstaklega, alveg frá hálsi og niður. En ég nýt þess samt sem áður. Ég veit að það eru ekki margir sem skilja þessa hugsun en verkurinn er partur af ferðalaginu og hverjum sting fylgir mikið stolt. Þess vegna vil ég engin verkjastillandi lyf eða neitt svoleiðis. Ég vil fá að njóta sársaukans því ég bjó hann til með stærsta þrekvirki sem mér hefur tekist hingað til.“
Hvað tekur svo við? Er hægt að toppa þetta? „Það er alltaf hægt að toppa sjálfan sig í öllu. Eða ég er allavega sannfærður um það. Ég er með nokkrar hugmyndir í sigtinu sem verið er að skoða og ég tilkynni það þegar að því kemur.“