24. janúar 2022

Margt BRASað á menningarhátíð barna og ungmenna á Austurlandi

BRAS menningarhátíð barna og ungmenna var haldin í fjórða sinn á Austurlandi haustið 2021. Að þessu sinni var þema hátíðarinnar Unga fólkið og umhverfið og voru einkunnarorð hátíðarinnar sem fyrr: Þora! Vera! Gera! Alcoa Fjarðaál hefur verið stoltur styrktaraðili hátíðarinnar frá upphafi og á þessum fjórum árum hefur fyrirtækið styrkt hana um tæpar fjórar milljónir króna.

 

Markmið BRAS
Markmið BRAS er að búa til vettvang þar sem öll börn á Austurlandi geta unnið saman og notið menningu og listar óháð fjárhag, kyni, aldri, búsetu, uppruna eða trú. Stýrihópurinn leitaði til ungmenna á Austurlandi varðandi þeirra sjónarmið og skoðanir á hátíðinni. Kosið var nýtt ungmennaráð sem valdi (ásamt stýrihópnum) þema þessa árs, út frá 24. grein Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Undirmarkmið BRAS eru að kynna fjölbreytt listform fyrir börnum, að opna augu þeirra fyrir mikilvægi samveru og samkenndar, að gefa þeim tækifæri til að kynnast á nýjan hátt, að auka virðingu og umburðarlyndi meðal barna, að þau læri að meta fjársjóðinn sem felst í aðgengi að ólíkum menningarheimum og að nota listsköpun til að byggja brýr.

 

Þora! Vera! Gera!
Í einkunnarorðum hátíðarinnar felst að börn á Austurlandi eru hvött til að þora að vera þau sjálf og framkvæma á eigin forsendum. Fjölbreytt listform voru nýtt til að stuðla að auknu aðgengi barna og ungmenna á Austurlandi að listum og menningu í heimabyggð. Taka þurfti tillit til alheimsfaraldurs, en með samstilltu átaki tókst að bjóða börnum og ungmennum upp á fjölbreytta viðburði í heimabyggð.

Árið 2021 var þema BRAS „Unga fólkið og umhverfið“ sem var valið í samráði við nýtt ungmennaráð. Viðburðum var skipt upp í lokaða og opna dagskrá. Lokaða dagskráin fór fram í skólum fjórðungsins í góðu samstarfi við skólastjórnendur en opna dagskráin fór fram víða og stóð öllum til boða að mæta á hana.


Bras1 StopMotion
Kennsla í Stopmotion


Lokuð dagskrá í skólum
Hátíðin hófst formlega þann 6. september með leiksýningu fyrir unglinga í Múlaþingi og unglingar í Fjarðabyggð fengu sömu sýningu mánudaginn 9. september. Hver viðburðurinn af öðrum fylgdi í kjölfarið. Fjarðabyggð var með þrjár smiðjur fyrir unglingana í grunnskólum Fjarðabyggðar. Í Múlaþingi unnu nemendur á miðstigi verkefni um Valþjófsstaðahurðina í samstarfi við Minjasafn Austurlands. Auk þess fengu nemendur á miðstigi kennslu í Stopmotion þar sem þjóðsagnapersónur lifnuðu við.

Menningarmiðstöðvarnar þrjár buðu upp á þrjú ólík verkefni. Menningarstofa Fjarðabyggðar/Tónlistarmiðstöð Austurlands bauð öllum leikskólabörnum uppá gagnvirkt fræðsluverkefni og Skaftfell á Seyðisfirði bauð nemendum á miðstigi upp á listfræðsluverkefni. Þá bauð Menningarmiðstöð Fljótsdalshéraðs einnig upp á listfræðsluverkefni í samstarfi við Þjóðleikhúsið.

Nemendum Menntaskólans á Egilsstöðum stóð til boða tvær smiðjur. Önnur fól í sér samtal ungmenna á milli ólíkra staða þar sem þátttakendur notuðu listrænar aðferðir til að nálgast listræna sköpun hvers annars. Hin smiðjan gaf þátttakendum eina einingu og var þar um að ræða Framtíðarsmiðju um loftslagsmál í samvinnu við Landvernd.


Opin dagskrá um menningar- og umhverfismál
Minjasafn Austurlands bauð upp á smiðju á Borgarfirði eystri sem nefndist Brasað á Lindarbakka en þar gafst gestum kostur á að nýta sjálfbæran, umhverfisvænan og endurnýtanlegan efnivið í opnum leik. Menningarstofa Fjarðabyggðar stóð fyrir fjölmörgum viðburðum, þar má nefna Húllafjör í Neskaupstað og vinnusmiðju í Studio Silo á Stöðvarfirði, opna ritlistarsmiðju, klippimyndasmiðju o.fl. Á vegum Skaftfell Art Center á Seyðisfirði fór fram listsmiðjan Stimpladýr en þar voru krakkarnir að teikna dýr, klippa og þrykkja.

Á Degi íslenskrar náttúru, þann 16. september gróðursettu 5. bekkingar á Austurlandi birkirtré sem Skógræktin í Hallormsstað gaf BRAS. Verkefnið var unnið í samstarfið við öll skógræktarfélög á Austurlandi og foreldrafélög í grunnskólum.
Múlaþing og Fjarðabyggð buðu upp á opna smiðju sem kallast Fuglateiknistöðin, þar sem þátttakendur áttu t.d. að hraðteikna, teikna fugl eftir hljóði, vinna skúlptúr og ýmislegt fleira.

Á Vopnafirði var haldin fjölþjóðleg listahátíð barna þar sem þjóðfánum allra barna á Vopnafirði var flaggað en þar búa börn af 10 ólíkum þjóðernum. Menningarmiðstöð Fljótsdalshéraðs bauð upp á opna brúðgerðarsmiðju í Sláturhúsinu og var smiðjan hluti af BRAS og einnig lokapunktur á pólskri listahátíð sem haldin var á sama tíma. Fjölmargir sóttu smiðjuna.

Allar nánari upplýsingar um BRAS má finna á heimasíðu verkefnisins.

 

Bras3 Upptakturinn

Frá tónlistarverkefni sem stóð til boða á BRAS menningarhátíðinni 2021