18. maí 2022

Ársfundur sjálfbærniverkefnis 2022: Húsnæðismál á Austurlandi

Í lok apríl var haldinn ársfundur sjálfbærniverkefnis Alcoa Fjarðaáls og Landsvirkjunar 2022 í Valaskjálf, Egilsstöðum. Þema fundarins var „Húsnæðismál á Austurlandi.“ Fundarstjóri á fundinum var Jóna Árný Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Austurbrúar.
Einar Már Sigurðarson, formaður Sambands sveitarfélaga á Austurlandi, flutti upphafsávarp og setti fundinn. Síðan tóku við erindi þar sem fjallað var um ýmis sjónarhorn á húsnæðismál Austurlands.


Byggingarkostnaður, framboð og eftirspurn
Jóhanna Klara Stefánsdóttir, sviðsstjóri mannvirkjasviðs hjá Samtökum iðnaðarins benti á að meðal fermetraverð á Austurlandi er enn undir meðal byggingarkostnaði á fermetra og hún telur það áhyggjuefni varðandi möguleikann að selja nýbyggingar. Kári S. Friðriksson, hagfræðingur hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun vakti athygli á miklum sveiflum í fasteignaverði milli byggðakjarna á Austurlandi, en verðið hefur hækkað töluvert. Gríðarleg eftirspurn er ástæða þess hvernig húsnæðismarkaðurinn er núna eins og hann er.

Sigurður Magnússon, löggildur fasteignasali hjá INNI fasteignasölu benti á að á síðustu 4 árum hefur framboð á fasteignum á Austurlandi hrunið úr því að vera um 50 eignir á hverjum tíma niður í 0-10. Hafliði Hörður Hafliðason, framkvæmdastjóri hjá Héraðsverki fjallaði um mikilvægi þess að mynda einhverja framtíðarsýn varðandi íbúðarhúsnæði. Hann benti sérstaklega á mikilvægi þess að heyra hvaða sýn unga fólkið hefur varðandi uppbyggingu og húsnæðismál. Ólafur Arnar Jónsson, forstöðumaður nærsamfélagsins og græns reksturs hjá Landsvirkjun, talaði um vinnu Landsvirkjunar í tengslum við samfélagsmál og stefnu fyrirtækisins varðandi það.

 

2022 sjálfbærnifundur - Smári
Smári Kristinsson, framkvæmdastjóri mannauðsmála hjá Alcoa Fjarðaáli

Skortur á húsnæði hamlandi fyrir ráðningar
Smári Kristinsson, framkvæmdastjóri mannauðsmála hjá Alcoa Fjarðaáli, fór yfir hvernig íbúðamál á Austurlandi snúa að fyrirtækinu. „Sem stærsti atvinnurekandi á Austurlandi höfum við hjá Alcoa Fjarðaáli miklar áhyggjur af þróun húsnæðismála á svæðinu,“ sagði hann. „Stærsti vandi okkar í að ráða fólk í dag er að fólk veigrar sér yfir að binda sig inn á svæðið vegna skorts á húsnæði. Hluti af starfsmannaveltu okkar er vegna fólks sem tekur sénsinn en finnur sér síðan ekki varanlegt húsnæði fyrir fjölskylduna. Hugmyndir um aukna atvinnuuppbyggingu á svæðinu bætist við núverandi stöðu sem í dag er ekki ásættanleg.“ Mesta veltan í starfsliði Fjarðaáls var á síðasta ári í aldursflokkinum 21-30 ára en hún var um 3%.

2022 - sjálfbærni - íbúafjöldi

Smári benti á þróun íbúafjölda í Fjarðabyggð og Múlaþingi frá 2018-2022 (sjá mynd). Fjölgunin nemur um 694 íbúum í báðum sveitarfélögunum. „Miðað við meðalfjölskylduna kallar þetta á 200 íbúðir,“ sagði hann. „Vissulega var eitthvað af tómum íbúðum í upphafi þessa tíma en þær hafa væntanlega fyllst í upphafi þessa tímabils. Það má því ljóst vera að fjölgun íbúa og íbúða er ekki að haldast í hendur, enda hafa lausnir sumra fyrirtækja legið í því að nýta gistiheimili og hótel til að ná starfsmönnum inn á svæðið.“ Hann bætti við að mannaflaspá til 2026 gerir ráð fyrir fjölgun íbúa á landinu um 50-60 þúsund manns. Einnig sagði hann ljóst er að leigumarkaður býður upp á tækifæri. „Er mögulegt að setja af stað sameiginlegt átaksverkefni fyrirtækja og sveitarfélaga á þessu sviði?“ spurði hann. „Markmiðið yrði að gera fyrirtækjum kleift að efla núverandi rekstur á svæðinu og ekki síður að gera það mögulegt að fjölga störfum og íbúum á Austurlandi í nánustu framtíð.“

Pallborðsumræður
Að loknum erindum voru pallborðsumræður. Í pallborði sátu (f.v.) Eydís Ásbjörnsdóttir frá Fjarðabyggð, Hafliði Hörður Hafliðason frá Héraðsverki, Stefán Bogi Sveinsson frá Múlaþingi, Kári S. Friðriksson frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun og Jóhanna Klara Stefánsdóttir frá Samtökum iðnaðarins.

Spurningar og svör úr pallborði verða gerðar aðgengilegar á heimasíðu sjálfbærniverkefnisins á næstunni dögum ásamt upptökum og glærum af erindum.

2022 sjálfbærnifundur - Salurinn