18. júlí 2022

Fjarðabyggð hlýtur styrk til náttúruverndar frá Alcoa Foundation

Alcoa Foundation, samfélagssjóður Alcoa í Bandaríkjunum, veitti Fjarðabyggð 130 þúsund dollara  styrk til að stuðla að náttúruvernd og minjavörslu á Gerpissvæðinu og Hólmanesi. Styrkurinn var veittur formlega í Viðfirði föstudaginn 15. júlí síðastliðinn. Þar var hópur á vegum Fjarðabyggðar að vinna að því að byggja upp göngustíg á svæðinu en það er hluti af þeirri vinnu sem styrkurinn var veittur til. Vinnan fólst meðal annars í því að viðhalda gömlum hleðslum og veita vatni frá stígnum.

Styrkurinn, sem var greiddur til Fjarðabyggðar á síðasta ári, nam um 20 milljónum íslenskra króna á þáverandi gengi. Styrkurinn er annars vegar nýttur í að vakta flóru og fánu í fólksvöngum Fjarðabyggðar og hins vegar til að varðveita menningarminjar sem felst í að endurheimta gamlar hleðslur í stígum á svæðinu. Jón Björn Hákonarson bæjarstjóri Fjarðabyggðar tók formlega við styrknum fyrir hönd sveitarfélagsins: „Þessi styrkur er sveitarfélaginu mikilvægur því fyrir tilstilli hans er hægt að vinna að verkefnum á sviði náttúruverndar og minjavörslu á þessum mikilfenglegu svæðum í Fjarðabyggð. Við erum þakklát Alcoa Foundation að veita okkur tækifæri til að sinna jafn vel og raun ber vitni þessum verkefnum.“

Einar Þorsteinsson forstjóri Alcoa Fjarðaáls afhenti styrkinn fyrir hönd Alcoa Foundation og hann sagði samfélagslega mikilvægt að öflugt fyrirtæki á borð við Alcoa taki virkan þátt í að byggja upp samfélagið á Austurlandi: „Alcoa Foundation er stór sjóður sem við njótum þess að geta sótt styrki í hér fyrir nærsamfélagið. Sjóðurinn styrkir verkefni á sviði umhverfisverndar og menntunar og verkefnið sem Fjarðabyggð sótti um er frábært dæmi um verkefni þar sem stuðlað er að verndun náttúru hér á svæðinu.“

 

Afhending_m

Jón Björn Hákonarson bæjarstjóri Fjarðabyggðar og Anna Berg Samúelsdóttir fráfarandi umhverfisstjóri Fjarðabyggðar tóku við styrknum frá Einari Þorsteinssyni forstjóra Alcoa Fjarðaáls og Dagmar Ýr Stefánsdóttur yfirmanni samskipta og samfélagsmála hjá Alcoa Fjarðaáli.

Hledsla_m

Anna Berg umhverfisstjóri hefur unnið að því síðustu vikur ásamt vinnuflokkum að lagfæra stíginn sem liggur um Viðfjörð til að gera hann betri fyrir göngufólk. Unnið hefur verið að því að endurheimta hleðslur og veita vatni frá veginum. F.v.: Einar Þorsteinsson, Dagmar Ýr Stefánsdóttir, Anna Berg Samúelsdóttir, Jón Björn Hákonarson og Páll Freysteinsson.

Lagfaering_m

Anna sýnir hópnum hvernig unnið hefur verið að því að lagfæra göngustíginn og gera hann um leið þannig að fjórhjól komist eftir stígnum til að hægt sé að bregðast við útkalli ef koma þarf göngufólki á svæðinu til hjálpar. 

Medvinnuhop_m

Vinnuhópurinn sem hefur síðustu daga unnið að lagfæringum á svæðinu ásamt fulltrúum Alcoa Fjarðaáls og Fjarðabyggðar.